Home Fréttir Í fréttum Yfir 300 íbúðir Bjargs komnar í útleigu

Yfir 300 íbúðir Bjargs komnar í útleigu

161
0
Íbúðir Bjargs í Þorlákshöfn eru hinar glæsilegustu og eru íbúar þegar fluttir inn.

Uppbyggingin hjá Bjargi íbúðafélagi, sem stofnað var af BSRB og ASÍ, heldur áfram og eru nú leigjendur fluttir inn í íbúðir félagsins í Þorlákshöfn og á Akureyri, auk þess sem á haustmánuðum voru teknar í notkun íbúðir við Kirkjusand, í Hraunbæ og í Úlfarsárdal í Reykjavík.

<>

Alls eru nú 311 íbúðir Bjargs í útleigu og eru 347 í hönnunarferli og byggingu. Þá eru 395 til viðbótar í undirbúningi, samkvæmt upplýsingum frá félaginu.

Bjarg mun síðar í nóvember opna fyrir umsóknir á þremur nýjum stöðum sem eru í byggingu. Hægt verður að sækja um íbúðir við Bátavog 1 í Reykjavík, þar sem 74 íbúðir eru í byggingu.

Þá verður hægt að sækja um íbúðir við Tangabryggju 5 í Reykjavík, þar sem 96 íbúðir eru í byggingu.

Fyrstu íbúðirnar á þessum tveimur stöðum fara í útleigu næsta haust. Á Selfossi eru svo 28 íbúðir í byggingu og verða þær fyrstu leigðar út um mitt næsta ár.

Bjarg íbúðafélag er sjálfseignarstofnun sem ASÍ og BSRB stofnuðu árið 2016. Félagið, sem rekið er án hagnaðarmarkmiða, hefur það hlutverk að byggja og reka leiguhúsnæði fyrir tekjulága félaga í heildarsamtökunum tveimur.

Markmiðið er að tryggja félagsmönnum aðgengi að hagkvæmu, öruggu og vönduðu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu.

Heimild: BSRB.is