Home Fréttir Í fréttum Vinnuhópurinn í Vaðlaheiðargöngum hefur farið hægar yfir síðustu vikur en áður

Vinnuhópurinn í Vaðlaheiðargöngum hefur farið hægar yfir síðustu vikur en áður

183
0
Vinnuhópurinn í Vaðlaheiðargöngum hefur farið hægar yfir síðustu vikur en áður. Mikil vinna fer í að þétta berg svo heitt vatn geri vinnuaðstæður ekki óbærilegar og meira köldu lofti er dælt inn en áður.

Hafist var aftur handa við að sprengja Eyjafjarðarmegin í göngunum í lok maí en vinnuaðstæður þar voru óbærilegar sökum hita. Búið er að koma fyrir nýjum og öflugri blásara sem dælir kaldara lofti inn í göngin. Borgengið fer þó hægt yfir.

<>

„Það hefur verið hægur gangur eftir að við fórum að reyna að beisla heita vatnið og halda því frá okkur. Við ákváðum það að reyna að þétta bergið meira, til að loka og vera með alveg þurr göng. Við erum í raun ekki að fá neitt vatn inn á okkur og það tekur þann tíma sem þarf í að dæla í allar sprungur með sementi og jafnvel efnagraut líka”, segir Valgeir Bergmann Magnússon, framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga hf.

Ekki er ljóst hvenær gegnumslag verður, en það var áætlað nú í september. Eins er ekki víst hvort ákveðið verður að bora beggja vegna frá eða halda aðeins áfram Eyjafjarðarmegin.

„Það kemur í ljós með haustinu, á sama tíma og við sjáum hvernig bergþéttingar ganga Eyjafjarðarmegin. Núna ganga þær ekkert rosalega hratt en við erum þolinmóðir. Við sjáum betur með haustinu hvernig staðan er og þá endurmetum við líka stöðuna”, segir Valgeir.

Í Fnjóskadal er þó áfram nóg um að vera og menn slá ekki slöku við.

„Síður en svo, það eru 50 manns að vinna á svæðinu og nú erum við að vinna við að klára vegskála, það er útivinna, það er verið að færa veginn, vegskeringar og almenn þessi vegagerð sem er tekin svona á sumri. Þannig að tíminn fer þá bara í það og krafturinn”, segir Valgeir.