Home Fréttir Í fréttum Ekki þörf á lögreglurannsókn á skjalamáli Braggans

Ekki þörf á lögreglurannsókn á skjalamáli Braggans

89
0
Mynd: RÚV
Borgarlögmaður telur ekki tilefni til að vísa efni skýrslu borgarskjalavarðar um Braggamálið svokallaða til lögreglu.
Hún segir að skjalavistun skrifstofu eigna og atvinnuþróunar í málinu hafi ekki falið í sér brot á ákvæðum laga um opinber skjalasöfn.

Þetta kemur fram í umsögn Ebbu Schram, borgarlögmanns, um frumkvæðisathugun Borgarskjalasafnsins.  Umsögnin var lögð fram á fundi borgarráðs í gær.

<>

Niðurstaða safnsins var að skjalavarsla og skjalastjórn skrifstofu eigna- og atvinnuþróunar í tengslum við braggann hefði ekki verið í samræmi við lög um skjalastjórn.

Í umsögn sinni vísar borgarlögmaður meðal annars til þess að Borgarskjalasafnið hafi gagnrýnt sérstaklega að tilteknar fundargerðir hafi verið vistaðar á skráarsniðinu „Google Docs“.

Fundið hafi verið að þeirri beiðni þáverandi starfsmanns skrifstofu eigna og atvinnuþróunar að skjölin yrðu send á PDF-skráarsniði þannig að ekki væri hægt að opna þau.

Borgarlögmaður segist hafa kannað þessar fundargerðir og komist að því að þær væru allar aðgengilegar, án vandkvæða.

Þá bendir hún á að ekki verði séð að umræddum starfsmanni hafi gefist tækifæri til að tjá sig um ástæður þess hvað hann átti við þessum orðum sínum.

Alvanalegt sé að skjöl séu send á læstu skráarsniði þannig að tryggt sé að ef skjal sem fylgir tölvupósti kemst í hendur óviðkomandi geti rangur viðtakandi ekki lesið skjalið.

Borgarlögmaður segir að þótt það verklagið við skjalavistun skrifstofunnar geti vart talist hafa verið í samræmi við vandaða starfshætti hafi það ekki verið í andstöðu við ákvæði laga um opinber skjalasöfn.

Í lok umsagnar sinnar segir borgarlögmaður að þótt hún geri ýmsar athugasemdir við lagatúlkun og niðurstöður Borgarskjalasafns telji hún rétt að þær tillögur að úrbótum sem safnið leggur til skuli koma til nánari skoðunar.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sögðu í bókun sinni vegna málsins að burtséð frá refsiábyrgð væri ljóst að „skjalavarsla á skrifstofu eigna og atvinnuþróunar var í molum.“ Og skjalavörslu borgarinnar væri enn víða ábótavant samkvæmt nýjustu úttekt Borgarskjalasafns.

Borgarfulltrúi Miðflokksins sagði þetta enn einn hvítþvottinn en þakkaði meirihlutanum reyndar fyrir að rifja Braggamálið upp.

Hún taldi borgarlögmann vera vanhæfan vegna álits sem hún hefði sent innkauparáði um að ekkert væri athugunarvert í braggamálinu.  Það væri alveg sama hvað embættismenn borgarstjóra skrifuðu mörg álit og greinargerðir til að fría hann ábyrgð. „Lögbrot voru framin og upp komst um mikið fjármálasukk.“

Borgarfulltrúar Miðflokks og Flokks fólksins hefðu vísað málinu til héraðssaksóknara og lögreglu og málið væri statt í þeirra höndum.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins sagði að sér fyndist eins og borgarlögmaður væri að draga niður frumkvæðisathugun borgarskjalavarðar.  Málið lyktaði allt af meðvirkni.  „Þeir sem tóku að sér að vísa málinu til þar til bærra yfirvalda voru oddvitar Miðflokks og Flokks fólksins. Enn er beðið eftir viðbrögðum þaðan.“

Meirihlutinn sagði í bókun sinni að umsögn borgarlögmanns væri skýr og ítarleg. Í henni væru gerðar fjölmargar athugasemdir við lagatúlkun Borgarskjalasafnsins vegna skjalavistunar.  Þó væri tekið undir úrbótatillögur safnsins.

Heimild: Ruv.is