Home Fréttir Í fréttum OECD: Kröfur um aðgengi fyrir alla verði endurskoðaðar

OECD: Kröfur um aðgengi fyrir alla verði endurskoðaðar

156
0
Mynd: Ruv.is
OECD telur að endurskoða þurfi kröfur um aðgengi fyrir alla í byggingaregluverki, til dæmis reglur um að húsnæði með lyftu þurfi að lúta reglum um algilda hönnun.
Þetta kemur fram í nýju samkeppnismati OECD á regluverki ferðaþjónustu og byggingariðnaðar á Íslandi.

Samkvæmt reglum um algilda hönnun skal tryggt að fólki sé ekki mismunað um aðgengi og almenna notkun bygginga á grundvelli fötlunar, skerðinga eða veikinda og það geti með öruggum hætti komist inn og út úr byggingum, jafnvel við óvenjulegar aðstæður, t.d. í eldsvoða.

<>

Leggja til að ákvæði um aðgengi fyrir alla verði endurskoðað

Í skýrslunni segir að flókið og tímafrekt ferli við öflun byggingarleyfa sé til þess fallið að hækka byggingarkostnað óþarflega mikið. OECD setur út á það að núgildandi regluverk geri ekki greinarmun á eðli framkvæmda þannig að sömu skilyrði gildi um öflun byggingaleyfa fyrir allar tegundir mannvirkja og segja núgildandi kröfur um algilda hönnun takmarkandi.

„Tilgangur ákvæðanna er að tryggja aðgengi allra og lágmarksútbúnað, en útfærsla þeirra er með þeim hætti að þau veita takmarkað svigrúm til nýskapandi lausna,“ segir í skýrslunni.

Því er lagt til að ferlið við veitingu byggingaleyfa verði einfaldað með skýrari tímafrestum og skilyrðum og að umsóknarferlið verði rafrænt að fullu.

Tilkynningarskylda um minni háttar framkvæmdir sem ekki séu háðar byggingaleyfi verði afnumin og að skilyrði um aðkomu tiltekinna starfsgreina að framkvæmdum verði endurskoðað.

Þá segir að endurskoða megi ákvæði sem kveði á um skilyrði um lágmarksgæði og aðgengi fyrir alla, „í því skyni að auka vægi markmiðsmiðaðra ákvæða í stað forskriftarákvæða sem takmarka það hvernig hvernig tilteknum markmiðum megi ná“.

Gerðar eru ýmsar athugasemdir við ákvæði í byggingarreglugerð 112/2012 sem snúa að því að byggingar verði að henta fyrir alla.

Sérstaklega er tekið fram að ákvæði um að í öllu íbúðarhúsnæði með lyftum verði að vera algild hönnun.

„Ákvæðið er mjög strangt og getur hækkað byggingarkostnað verulega, sem getur leitt til hærri íbúðarverðs og þannig gert neytendum erfiðara fyrir að kaupa íbúðir,“ segir í skýrslunni.

OECD leggur til að annað hvort verði ákvæðið tekið út úr reglugerðinni eða skipt út fyrir ráðgefandi ákvæði með skýrum leiðbeiningum og útskýringum. Sambærilegar athugasemdir eru gerðar við ýmis önnur ákvæði er varða aðgengi fyrir alla í nýbyggingum.

OECD setur þó ekki sérstaklega út á ákvæðið um að í öllum húsum sem eru hærri en tveggja hæða, að frátöldum einbýlishúsum, raðhúsum og parhúsum, þurfi að vera lyfta.

Tillaga um að draga úr kröfum um fjölda bílastæða í Reykjavík

Meðal þeirra úrbóta sem OECD leggur til á reglugerði byggingariðnaðarins er að tekið verði til skoðunar að lækka gatnagerðargjöld og draga úr kröfum um fjölda bílastæða í Reykjavik vegna áhrifa á byggingarkostnað.

Annars þurfi að móta aðrar minna íþyngjandi leiðir til að ná þeim markmiðum sé stefnt sé að.

Þá leggur stofnunin til að ferlið og reglur sem gilda um úthlutun lóða verði endurskoðað til þess að skýra ferlið og auka framboð lóða í samræmi við eftirspurn.

„Reglur um lóðaúthlutun ættu ekki að hygla þeim fyrirtækjum sem fyrir eru á markaði. Þær ættu heldur ekki að vera óþarflega hamlandi, til dæmis hvað varðar möguleika á að skila lóðum,“ segir í skýrslunni.

Vilja afnema löggildingu bakara og ljósmyndara

Fréttastofa fjallaði um það í gær að í skýrslunni væru stjórnvöld hvött til að draga úr vægi löggildingar og endurskoða í heild löggjöf um löggiltar starfsgreinar.

Fram kemur að of yfirgripsmikil lögverndun geti haft í för með sér hærra verð til neytenda, lægri framleiðslu og færri störf.

Í niðurstöðum OECD er fjallað um að of umfangsmikil lögverndun starfsgreina komi niður á neytendum með hærra verði á neysluvörum, minni framleiðni og fækkun starfa. Þá er vísað til þess að á Íslandi séu fleiri lögverndaðar starfsgreinar en í öðrum Evrópuríkjum.

Í skýrslunni segir að miklar aðgangshindranir séu til staðar á mörkuðum fyrir hvers kyns starfsemi sem krefjist fjölda löggildra fagaðila.

OECD leggur til að ráðist verði í heildarendurskoðun á löggjöf um löggiltar starfsgreinar og metið hver markmið löggildingar eru. Þá er lagt til að einkaréttur til tiltekinna starfa verði afnuminn eða þrengdur og að kerfi meistararéttinda verði endurskoðað.

Að lokum er lagt til að tekið verði til skoðunar að draga úr reglubyrði fyrir smiði, rafvirkja, pípara, byggingastjóra, löggilta hönnuði, fasteignasala, arkitekta og verkfræðinga. Og síðast en ekki síst leggur OECD til að löggilding bakara og ljósmyndara verði afnumin með öllu.

Landssamband bakarameistara hefur nú þegar brugðist við og sagt OECD fara langt út fyrir sitt starfssvið. Þórdís Kolbrún Gylfadóttir, ferðamála,- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hefur sagst gera ráð fyrir að lögvernduðum starfsheitum muni fækka og að þrátt fyrir fyrirséða gagnrýni úr ýmsum áttum sé hollt að ráðast í breytingar sem þessar.

Breytingarnar geti aukið landsframleiðslu um 1 prósent

Samkeppnismat Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) á Íslandi hefur leitt í ljós umtalsverða möguleika á því að tryggja að regluverkið í kringum byggingarstarfsemi og ferðaþjónustu styðji betur við virka samkeppni.

Samkvæmt skýrslu OECD eru 677 mögulegar samkeppnishindranir í regluverkinu og stofnunin gerir 438 tillögur til breytinga. Að því er fram kemur í skýrslunni eru tillögurnar til þess fallnar að skapa „sveigjanlegra umhverfi fyrir viðkomandi atvinnustarfsemi, skapa fleiri störf og auka framleiðni og vöxt í hagkerfinu á næstu árum“.

OECD leggur sérstaka áherslu á að tillögurnar séu mikilvægar í ljósi þess efnahagssamdráttar sem blasir við stjórnvöldum vegna kórónuveirufaraldursins. Áhrif þess að stjórnvöld fari að tillögu stofnunarinnar nemi um það bil 1 prósenti af landsframleiðslu Íslands.

Heimild: Ruv.is