Home Fréttir Í fréttum VHE að ná skulda­lækkun og nauða­samningum

VHE að ná skulda­lækkun og nauða­samningum

469
0
VHE er rótgróið fyrirtæki, stofnað 1971. Fréttablaðið/Ernir

Samkvæmt heimildum Markaðarins er gert ráð fyrir því í drögum að nauðasamningatillögum að skuldir verði afskrifaðar þannig að heildarskuldir VHE lækki úr 7,5 milljörðum króna niður í um 5 milljarða.

<>

Á móti þessari skuldalækkun verða félaginu lagðar til 400 milljónir króna í nýtt hlutafé.

VHE, stærsta vélsmiðja landsins, hefur fengið samþykki kröfuhafa, þar á meðal Landsbankans sem er langsamlega stærstur, fyrir framlengingu á greiðslustöðvun svo að unnt sé að leita nauðasamninga.

Heimild VHE til greiðslustöðvunar átti að renna út 8. nóvember en var framlengd um mánuð. Samkvæmt heimildum Markaðarins er gert ráð fyrir því í drögum að nauðasamningatillögum að skuldir verði afskrifaðar þannig að heildarskuldir VHE lækki úr 7,5 milljörðum króna niður í um 5 milljarða.

Á móti þessari skuldalækkun verða félaginu lagðar til 400 milljónir króna í nýtt hlutafé og mun það að mestu leyti koma frá núverandi eigendum VHE.

Þá samþykkir Landsbankinn að breyta veðkröfum í samningskröfur við gerð nauðasamninga en bankinn mun þó fá söluandvirði dótturfélaga VHE sem eru langt komin í söluferli. Má þar nefna Landvélar, Fálkann og Straumrás.

Lögmaðurinn Guðmundur Skúli Hartvigsson hefur verið skipaður umsjónarmaður með nauðasamningsumleitunum VHE eftir því sem Markaðurinn kemst næst.

VHE, eða Vélaverkstæði Hjalta Einarssonar, er í meirihlutaeigu Unnars Steins Hjaltasonar sem fer með 80 prósenta hlut á móti systkinum sínum, Einari Þór og Hönnu Rúnu Hjaltabörnum.

VHE er rótgróið fyrirtæki, stofnað 1971, sem var byggt upp á þjónustu við álver.

Það er jafnframt orðið umsvifamikið í byggingargeiranum. Allt frá fjármálahruninu, þegar lán frá Landsbankanum tóku stökkbreytingu, hefur VHE hins vegar glímt við vanskil og lausafjárskort. VHE velti 8,8 milljörðum króna í fyrra og tapaði 981 milljón króna.

Vélsmiðjan fékk heimild Héraðsdóms Reykjaness til greiðslustöðvunar um miðjan apríl og voru þá starfsmann fyrirtækisins 250 talsins.

Skuldir, sem hafa verið greiddar niður jafnt og þétt á síðustu árum og námu 10,1 milljarði í lok árs 2016, stóðu í 7.352 milljónum króna þegar greiðslustöðvunin var heimiluð. Eignir námu hins vegar 7.660 milljónum.

Fjöldi lánardrottna VHE er á þriðja hundrað en sem fyrr segir er Landsbankinn langstærsti kröfuhafinn. Í hópi kröfuhafa má einnig finna fjölmarga lífeyrissjóði, Íslandsbanka og Ergo, bílafjármögnun bankans.

Eins og Markaðurinn greindi frá í vor hafa eigendur VHE greitt sér arð í gegnum systurfélagið Nesnúp, sem heldur utan um lóðir sem VHE framkvæmir á. Nesnúpur, sem skuldar tengdum félögum hundruð milljóna króna, hefur notað söluhagnað á íbúðum til að byggja upp eigið fé úr engu.

Arðgreiðslur út úr Nesnúpi námu rúmlega 50 milljónum króna á tímabilinu 2013 til 2019. Hagnaður félagsins eftir skatta á sama tímabili, sem má að langmestu leyti rekja til sölu á íbúðum, nam 357 milljónum króna.

Á sex árum hefur Nesnúpur náð að byggja eiginfjárstöðuna upp í 320 milljónir króna í lok árs 2019 en hún var tvær milljónir árið 2012.

Heimild: Frettabladid.is