Home Fréttir Í fréttum „Það vantar fleiri lóðir“ á Akranesi

„Það vantar fleiri lóðir“ á Akranesi

196
0
Tölvugerð myndir úr íbúð frá Akri sem verið er að byggja við Akralund.

„Það vantar fleiri lóðir“ – Nýtt verkefni við Akralund fer vel af stað hjá Akri.

<>

„Það eru alltaf áskoranir fyrir fyrirtæki í þessu fagi. Við höfum leyft okkur að vera bjartsýn þrátt fyrir undarlega tíma vegna Covid-19,“ segir Halldór Stefánsson framkvæmdastjóri eins elsta fyrirtækis Akraness við Skagafréttir.

Halldór og Stefán Gísli Örlygsson, bróðursonur hans, stýra daglegum rekstri hjá Trésmiðjunni Akri sem var stofnuð þann 20. nóvember árið 1959 en fyrirtækið fagnaði sextíu ára afmæli á liðnu ári.

Trésmiðjan Akur hefur skipað stóran sess í atvinnulífinu á Akranesi allt frá árinu 1959 þegar Fríða Lárusdóttir, Stefán Teitsson, Hallfríður Georgsdóttir, Magnús Lárusson, Erla Guðmundsdótitr og Gísli S. Sigurðsson stofnuðu fyrirtækið.

Þegar mest lét störfuðu um 40 manns hjá fyrirtækinu en um 20 manns eru við störf hjá Trésmiðjunni Akri í dag.

Einingahús frá Akri eru þekkt á landsvísu
„Við höfum framleitt timbureiningarhús, bæði sumarhús og íbúðarhús, allt frá árinu 1980 og þau eru að finna nánast út um allt land. Einn af stærstu kostum einingahúsa er að það tekur aðeins 5-7 daga að reisa meðalstórt hús og fullgera í fokhelt ástand.

Á níunda áratug síðustu aldar seldi Akur eitt timbureiningahús til Grænlands og fóru nokkri starfsmenn Akurs og reistu það. Timbureiningahúsin eru ein af megin stoðum í starfssemi fyrirtækisins.

Húsin eru vel þekkt á landsvísu. Á árunum 2004-2006 reistum við um 30 íbúðaeiningar á Austurlandi í tengslum við uppbygginguna sem átti sér stað í kjölfar Kárahnjúkavirkjunar. Í öðrum landshlutum eru hús frá okkur víða en í dag eru flest verkefnin á Akranesi.

Það er því mikil þekking og reynsla hjá fyrirtækinu á þessu sviði. Húsin eru íslensk hönnun og framleiðslan fer fram hér á verkstæðinu á Akranesi við bestu hugsanlegar aðstæður,“ segir Halldór.

Tíu íbúðir við Akralund í byggingu

Tölvugerð mynd úr íbúð frá Akri sem verið er að byggja við Akralund.

Um þessar mundir eru starfsmenn Akurs að reisa raðhús við Akralund og hafa húsin risið hratt á undanförnum dögum.

Framkvæmdin gengur vel en við verðum með alls 10 íbúðir við Akralund í þessari törn, tvö raðhús og eitt parhús. Verkefni við Akralund fer vel af stað og þrjá af fjórum íbúðum sem eru að rísa eru þegar seldar. Íbúðirnar eru allar 166 fermetrar, með þremur svefnherbergjum og bílskúr.

Í grunnatriðum hefur framleiðslan hjá okkur á einingahúsum ekki breyst mikið. Efnisvalið er umhverfisvænt og krossviðurinn er notaður mikið í dag. Helsta breytingin í framleiðslunni er sú að efnin sem notuð eru við að þétta húsin hafa þróast og batnað mikið frá því sem var fyrir 20-30 árum.

Við leggjum einnig mikla áherslu á að rakavarnarlagið sé rétt sett upp – það skiptir mestu máli í timburhúsum,“ segir Halldór sem þekkir allar hliðar á þessari framleiðslu en hann hefur starfað hjá Akri frá árinu 1989 sem húsasmíðameistari og byggingatæknifræðingur.

Tölvugerð mynd úr íbúð frá Akri sem verið er að byggja við Akralund.

Timbur er umhverfisvænn kostur
Halldór vekur einnig athygli á því að timbur og timburvörur séu æskilegt byggingarefni út frá umhverfissjónarmiðum. Í því samhengi má nefna að á heimsvísu valda byggingar um 40% af allri kolefnislosun.

Umhverfismál eru okkur ofarlega í huga. Við hönnun og framleiðslu Akurshúsa leggjum við áherslu á að velja efni sem eru með lágt kolefnasport, tryggja þarf góða nýtingu efna og lágmarka byggingaúrgang.

Það hefur ítrekað verið sýnt fram á það að timburhús eru vistvænn valkostur og æskilegt byggingarefni. Timbur bindur kolefni er því með mjög lágt kolefnisspor. Gólfefni úr timbri á heimilum fólks bindur t.d. kolefni líkt og borðplatan í skrifborðinu.“

Vantar fleiri lóðir til úthlutunar
Það er í mörg horn að líta í byggingaiðnaðinum og segir Halldór að framboð af lóðum á Akranesi sé ekki nægjanlegt.

Halldór Stefánsson Mynd: Skagafrettir.is

„Undanfarin 2-3 ár hefur verið viðvarandi lóðaskortur. Að mínu mati gæti Akraneskaupstaður gert betur. Á síðustu árum hefur verið mikil eftirspurn eftir lóðum en því miður hefur framboðið ekki verið nægjanlegt. Til viðbótar við lítið sem ekkert framboð þá hafa lóðarhafar fengið alltof langan tíma til að skila inn uppdráttum og hefja framkvæmdir.

Dæmi er um að aðilar sem fengu lóðum úthlutað í ársbyrjun 2018 eru enn með lóðirnar án þess að hafa gert nokkuð á þeim. Í þessum lóðaskorti eru þessi vinnubrögð af hálfu bæjaryfirvald ekki sæmandi.

Það kerfi sem notað er við úthlutun lóða í dag er í raun bara happdrætti. Við höfðum heppnina með okkur í úthlutun við Akralund á meðan við höfðum ekki heppnina með okkur við aðrar úthlutanir.

Með slíku kerfi er erfitt fyrir alla aðila í þessu fagi að skipuleggja mörg misseri fram í tímann. Ég held að allir sem eru í byggingariðnaði á Akranesi hafi gagnrýnt lóðaskortinn – núverandi kerfi á úthlutun lóða er ekki nægjanlega gott að flestra mati,“ segir Halldór Stefánsson.

Hvers vegna er timbur umhverfisvænn valkostur?

Timbur hagar sér eins og kolefnisgeymir (CO2) Þegar tré vaxa gleypa þau kolefni með ljóstillífun sem losar súerefni og geymir kolefni. Þegar tré rotna þá losa þau kolefni. Tré sem eru ræktuð til t.d. timburframleiðslu eru felld áður en þau byrja að rotna og geyma því enn kolefnið. Allar timburvörur eru því kolefnisgeymslur. Að okkar mati er timbur æskilegt byggingarefni þar sem að timbur er með mjög lágt kolefnisspor.

Heimild: Skagafrettir.is