Home Fréttir Í fréttum Hægist á byggingariðnaði

Hægist á byggingariðnaði

193
0
Mynd: Haraldur Guðjónsson

Velta í byggingariðnaði dróst samtals saman um 13% milli ára í júlí og ágúst miðað við fast verðlag.

<>

Velta við byggingu húsnæðis og þróun byggingaverkefna nam um 29 milljörðum króna og dróst saman um tæp 16% milli ára miðað við fast verðlag.

Velta í sérhæfðri byggingarstarfsemi sem nær m.a. til vinnu við raf- og pípulagnir, málningarvinnu og uppsetningu innréttinga, nam 25 milljörðum króna og dróst töluvert minna saman, eða um 9% milli ára.

Samanlagt dróst velta í byggingariðnaði saman um 13% milli ára í júlí og ágúst miðað við fast verðlag.

Þetta kemur fram í gögnum Hagstofu Íslands um veltu samkvæmt VSK-skýrslum fyrir uppgjörstímabilið júlí og ágúst er Hagsjá hagræðideildar Landsbankans greinir frá.

„Frá lokum síðasta árs hefur mælst samdráttur í byggingariðnaði samkvæmt VSK-skýrslum og hefur hann aukist eftir að Covid-19-faraldurinn skall á.

Samdrátturinn er þó minni í sérhæfðri byggingarstarfsemi en í þróun og byggingu húsnæðis. Það gæti verið sökum þess að margt af því húsnæði sem er í byggingu núna, er komið á síðari byggingarstig og vinna við frágang því orðin fyrirferðameiri.

Þessi flokkur (ISAT nr. 43) nær þó einnig til niðurrifs og undirbúningsvinnu á byggingarsvæðum, sem er til að mynda algeng á þéttingarreitum, og gæti því einnig átt við ný verkefna sem eru að fara af stað,“ segir í Hagsjánni.

Hægt hafi á samdrætti í innflutningi á byggingarefnum. Í mars hafi 26% samdráttur mælst milli ára, sé litið til 12 mánaða hlaupandi meðaltals, og hafði þá aukist nokkuð hratt.

Þróunin hafi hins vegar svo snúist við í sumar og samdráttur aðeins mælst 3% í ágúst. Margir hafi nýtt sumarið innanlands til þess að huga að endurbótum á heimilum, sem sjáist meðal annars á kortaveltu í byggingarvöruverslunum, sem aukist hafi um þriðjung milli ára í ágúst.

Því megi vera að innflutningur á byggingarefnum síðustu mánuði sé að miklu leyti vegna endurbóta á húsnæði fremur en vegna nýrrar íbúðauppbyggingar.

„Í nýútgefinni þjóðhags- og verðbólguspá Hagfræðideildar kemur fram að við spáum 16% samdrætti í íbúðafjárfestingu í ár en gerum svo ráð fyrir að hún aukist lítillega á næstu árum, út spátímann.

Það hefur mikið verið byggt á síðustu árum og svo verður áfram, gangi þessi spá eftir, þó það hægi á vexti,“ segir að lokum í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans.

Heimild: Vb.is