Home Fréttir Í fréttum Minni fækkun í mannvirkjagerð en í fyrri niðursveiflum

Minni fækkun í mannvirkjagerð en í fyrri niðursveiflum

85
0
Mynd: Fréttablaðið/Andri

Starfsfólki hefur fækkað í öllum þremur megingreinum iðnaðarins síðan faraldurinn hófst samkvæmt nýrri greiningu Samtaka iðnaðarins. Hagfræðingur segir að næstu ár gætu verið drifin af vexti í iðnaði.

<>

Starfsfólki hefur fækkað í öllum þremur megingreinum iðnaðarins frá því að COVID-19 heimsfaraldurinn hófst samkvæmt nýrri greiningu Samtaka iðnaðarins (SI). Það er mannvirkjagerð, framleiðsluiðnaði og hugverkaiðnaði.

Höggið er þó minna í mannvirkjagerðinni nú en í fyrri niðursveiflum vegna viðbragða stjórnvalda. Verði rétt á spöðunum haldið getur iðnaðurinn orðið einn helsti drifkraftur viðspyrnu eftir COVID líkt og hann var eftir bankahrunið.

„Mótvægisaðgerðir í hagstjórn meðal annars í formi aukinna innviðaframkvæmda hafa mildað niðursveifluna í greininni,“ segir Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI.

„Þess vegna sjáum við ekki jafnmikinn samdrátt nú og vanalega þegar kreppir að. Þetta jákvætt en innviðaframkvæmdir renna einnig stoðum undir og undirbyggja hagvöxt til lengri tíma.“

Ingólfur segir að ef samkeppnishæfnin sé tryggð verði næstu ár drifin áfram að stórum hluta vegna vaxtar í iðnaði. „Við höfum lagt áherslu á nýsköpun og erum ánægð með að sjá þær breytingar sem hafa átt sér stað í starfsumhverfi hennar hér á landi, sem skilar sér inn í reksturinn og dreifist víðs vegar um hagkerfið.“

Greining SI var gerð á störfum á síðasta áratug. Stóri efnahagsvandinn nú sé töpuð störf í einkageiranum, en störfum hjá hinu opinbera hefur fjölgað að hluta til vegna átaksverkefna stjórnvalda.

Þeim sem starfa í einkageiranum hefur fækkað um 19 þúsund á tólf mánuðum fram til ágúst á þessu ári og birtist það meðal annars í því að 9 prósent vinnufærra eru atvinnulaus, og fer að öllum líkindum fjölgandi í vetur.

Leggst þetta mjög mishart á greinarnar, fækkun starfsfólks í ferðaþjónustu er 35 prósent en aðeins tæp 4 í sjávarútvegi. Heildarfækkun í greinum iðnaðarins er 7 prósent, sem eru 3.400 töpuð störf.

Við búum vel að því að geta nýtt ríkisfjármálin til að örva eftirspurn og skapa þá viðspyrnu sem svo mikil þörf er fyrir.

„Fækkunin í mannvirkjagerð er minni en í fyrri niðursveiflum en þetta er ein sveiflukenndasta grein hagkerfisins,“ segir Ingólfur. „Mótvægisaðgerðir í hagstjórn meðal annars í formi aukinna innviðaframkvæmda hafa mildað niðursveifluna í greininni. Þess vegna sjáum við ekki jafnmikinn samdrátt nú og vanalega þegar kreppir að.

Þetta jákvætt en innviðaframkvæmdir renna einnig stoðum undir og undirbyggja hagvöxt til lengri tíma.“

Samkvæmt greiningunni fjölgaði störfum hlutfallslega meira í iðnaði en flestum öðrum greinum atvinnulífsins í síðustu efnahagsuppsveiflu. Árið 2019 störfuðu 44 þúsund manns í iðnaði, 10 þúsund fleiri en árið 2010.

Sem sagt, eitt af hverjum fjórum störfum sem urðu til á þessum tíma. Síðan faraldurinn hófst hefur verið 9 prósent fækkun í mannvirkjagerð, 7 prósent í framleiðslu og 4 prósent í hugverkaiðnaði.

Nefnir Ingólfur að aðstæður hafi verið á margan hátt góðar hér áður en faraldurinn skall á, skuldastaða hins opinbera góð, verðbólga og verðbólguvæntingar við markmið Seðlabankans.

Þetta hafi gert það að verkum að hægt hefur verið að beita peningamálum og opinberum fjármálum á kröftugri hátt en í fyrri niðursveiflum til að milda höggið.

„Við búum vel að því að geta nýtt ríkisfjármálin til að örva eftirspurn og skapa þá viðspyrnu sem svo mikil þörf er fyrir,“ segir hann. „Verðbólga hefur verið við markmið og trúverðugleiki peningastefnunnar skapað svigrúm til vaxtalækkana Seðlabankans. En í fyrri niðursveiflum hefur gengislækkun og verðbólga verið mikið vandamál.“

Ingólfur segist ánægður með áherslu stjórnvalda á innviðauppbyggingu, nýsköpun og menntamál og af hversu miklum þunga ríkisfjármálunum sé beitt til að takast á við vandann.

„Þetta eru lykilþættir við að skaffa atvinnulífinu viðspyrnu í formi sterkrar samkeppnishæfni,“ segir hann.

Enn þá sé óvissan þó mikil og nefnir hann sem dæmi að hagvaxtarspá næsta árs hafi verið að lækka vegna þess að faraldurinn hefur dregist á langinn. „Þetta er erfiðara verkefni en leit út í fyrstu og í því ljósi þarf að gera meira til að tryggja viðspyrnu og fjölgun starfa á ný,“ segir hann.

„Atvinnuleysi er nú sögulega hátt og til mikils að vinna að hér verði ekki langtímaatvinnuleysi en það er eyðileggjandi fyrir fólk.“

Heimild: Frettabladid.is