Home Fréttir Í fréttum Steypt slitlag á brú yfir Steinavötn

Steypt slitlag á brú yfir Steinavötn

288
0
Mynd: Vegagerðin

Steypt slitlag var lagt út á nýja brú yfir Steinavötn í Suðursveit um helgina.

<>

Steypta slitlagið er 50 mm þykkt og um 100 MPa að styrk. Það eru Ólafur Wallevik og starfsmenn RB á Nýsköpunarmiðstöð Íslands, ásamt Helga Ólafssyni brúarhönnuði hjá Vegagerðinni, sem í sameiningu hafa þróað þetta steypta slitlag á brýr.

Mynd: Vegagerðin

Steypan er einstök á heimsvísu því hún er sjálfpakkandi, frekar stíf og notaður er seigjumælir til að stýra framleiðslu.

Nokkrir kostir steypta slitlagsins:

  • Þéttara en venjuleg steypa; hleypir síður vatni og salti í gegn; vörn fyrir burðarsteypu yfirbyggingar, uppspennukapla og járnbendingu.
  • Lokar sprungum sem myndast í burðarsteypu yfirbyggingar.
  • Yfirborð á brú er mun sléttara og sterkara með steyptu slitlagi.
  • Auðveldar viðhald til muna í framtíðinni.
  • Steypt slitlag endist vel, meðal annars lengur en malbikað slitlag.

Slitsterk steypa hefur meðal annars verið notuð á eftirfarandi brýr með góðum árangri:  Arnarnesbrú, Borgarfjarðarbrú, Blöndubrú, Bæjarháls, Miðfjarðará, Sogsbrú og Ölfusárbrú.

Mynd: Vegagerðin

Brúin yfir Steinavötn í Suðursveit eyðilagðist í flóðum í lok september 2017 þegar áin gróf undan einum stöpli brúarinnar.  Brúin var metin ófær bílum og á örfáum dögum var reist bráðabirgðabrú yfir ána.

Smíði nýrrar brúar yfir Steinavötn var boðið út haustið 2019 en þá bárust engin tilboð. Útboð fór fram að nýju um haustið og bárust þá níu tilboð. Það lægsta frá ÍSTAKI hf. sem sér um smíði brúarinnar.

Mynd: Vegagerðin

Framkvæmdir á verkstað hófust í mars á þessu ári. Yfirbygging brúarinnar var steypt í lok september, uppspennu var lokið viku síðar. Nokkrum vikum síðar var síðan óhætt að setja steypt slitlag á hrjúft steypt burðarlagið.

Mynd: Vegagerðin

Verklok á brúnni yfir Steinavötn eru áætluð 24. nóvember þegar stefnt er á að hleypa umferð yfir brúna.

Heimild: Vegagerðin