Home Fréttir Í fréttum Mikil eftirspurn eftir erlendu vinnuafli á Íslandi

Mikil eftirspurn eftir erlendu vinnuafli á Íslandi

90
0

Aukin ásókn er í að flytja erlent vinnuafl inn til landsins og segir formaður Vélstjóra og málmiðnaðarmanna Vinnumálastofnun ekki standa sig í eftirlitinu. Forstjóri Vinnumálastofnunar segir eftirlit með kjörum útlendra starfsmanna byggja á samstarfi við verkalýðshreyfinguna.

<>

Guðmundur Ragnarsson formaður Félags vélstjóra og málmsmiða sagði í Bítinu á Bylgjunni í morun að félaginu væri kunnugt um útlendinga sem kæmu hingað til vinnu í gegnum útlenskrar starfsmannaleigur á mun verri kjörum en íslenskir starfsmenn. Meðal annars í álverinu í Straumsvík sem þrýstir mjög á aukna verktöku.

„Áður en menn fara að gefa eitthvað eftir þarf eftirlitið að komast í lag. En það er náttúrlega með Vinnumálastofnun eins og margar opinberar stofnanir á Íslandi í dag. Þetta er ekkert nema umbúðirnar. Það er ekkert innihald. Það er búið að skera niður allt fjármagn. Það er ekki starfsfólk til að sinna einu né neinu,“ sagði Guðmundur í Bítínu.

Gissur Pétursson forstjóri Vinnumálastofnunar segir eftirlit stofnunarinnar með erlendu vinnuafli og starfsmannaleigum langt í frá lamað. Hins vegar hafi ástandið á íslenskum vinnumarkaði snúist við á undanförnum misserum.

En hafa komið inn á borð til ykkar dæmi þar sem verið er að reyna að borga fólki verri laun en á að gera?

„Já, þau koma gjarnan. Þetta gerist með þeim hætti að fyrirtæki skrá sig ýmist eða eða senda inn umsóknir til okkar sem við berum síðan undir stéttarfélögin til að fá þeirra álit á því hvort að þau launakjör sem í boði eru séu réttmæt,“ segir Gissur.

Vinnumálastofnun sé líka í samstarfi við skattayfirvöld, lögreglu og fleiri þegar kemur að veitingu atvinnuleyfa til einstaklinga og starfsmannaleiga.

Þannig að það er þrýstingur á að skrá erlenda starfsmenn hingað inn til landsins?

„Já, það er að koma bæði það sem kallað er útsendir starfsmenn, þ.e.a.s. starfsmenn í gegnum starfsmannaleigur, og svo líka þessi hefðbundnu atvinnuleyfi,“ segir Gissur.

Það sé grundvallaratriði að enginn njóti verri kjara sem íslenskir samningar geri ráð fyrir og þá sé samstarf við verkalýðshreyfinguna mikilvlægt. Ástandið nú minni á stöðuna fyrir hrun.

„Óneitanlega. Það er gríðarlega mikil ásókn eftir erlendu vinnuafli og við erum farin að spyrja okkur hvort 2007 sé komið aftur. Sem við vonum svo sannarlega ekki vegna þess að það hafði nú alvarlegar afleiðingar,“ segir Gissur Pétursson.

Heimild: Vísir.is