Nú í sumar hófust framkvæmdir á lóð Grunnskólans í Borgarnesi. Um er að ræða miklar breytingar og endurbætur á útisvæði nemenda.
Um lóðarhönnun sjá landslagsarkitektarnir Ulla Rolfsigne Pedersen og Hildur Dagbjört Arnardóttir á verkfræðistofunni Verkís.
Á lóðinni er gert ráð fyrir útikennslustofu, útisviði og setpöllum, hengirúmum, sjóræningjaskipi, ýmsum leiktækjum og fleiru.
Hönnunin var að miklu leyti unnin í samráði við nemendur og starfsfólk skólans með aðferð sem nefnist vistræktarhönnun (aðferð SADIM).
Nemendur voru fengnir til að kortleggja núverandi notkun sína á skólalóðinni og tjá hugmyndir sínar um hvers kyns skólalóð samræmdist helst þeirra áhugamálum og þörfum.
Skólastigin hafa vitanlega misjafnar þarfir en meðal annars kom í ljós að yngsta stigið hefur mikinn áhuga fyrir smíðum, klifri í klettum og tækjum og að snúast og renna, á meðan unglingastigið kýs heldur boltaíþróttir eða að hanga og spjalla.
Marga nemendur langar jafnframt til að kynnast frumkröftum náttúrunnar betur, sem sagt eldi og rennandi vatni.
Í vistræktarhönnun felst meðal annars að tengjast betur nánasta umhverfi sínu og náttúru. Hönnun lóðarinnar gefur færi á að auka fjölbreytileika gróðurs og lífkerfis á skólalóðinni, gefur jafnvel möguleika á að rækta matjurtir og tengja þannig ræktun við kennsluna.
Við hönnunina er leitast við að mynda skjól, skapa fjölbreyttari möguleika til að hreyfa sig og hafa samskipti.
Lögð er áhersla á eftirfarandi þætti:
- Að hanna í þéttu samstarfi við nemendur og starfsfólk umhverfisvæna skólalóð sem hentar grænfánaskóla, bæði fyrir kennslu og leik.
- Að útkoman verði fjölbreytt skólalóð þar sem allir geti fundið sér stað og liðið vel, sama hvort þeir þurfi rólegheit eða útrás.
- Vinna að því að skapa skjól svo upplifunin af útiveru á skólalóðinni sé jákvæðari og minni vindkæling.
Lóðarframkvæmdirnar hófust eins og fyrr segir nú í sumar. Eiríkur Ingólfsson ehf. sér um framkvæmdina ásamt garðaþjónustunni Sigur-Görðum. Framkvæmdum á lóð er skipt upp í tvo áfanga.
Í fyrri áfanga er bygging útisviðs/palla, útikennslustofu, hengirúm og fleira. Áætlað að sá áfangi klárist nú í nóvember. Í seinni áfanga bætist meðal annars við sjóræningjaskip, en ekki hefur verið staðfest hvenær sú framkvæmd getur hafist.
Jafnframt eru yfirstandandi framkvæmdir við húsnæði skólans, í þeim hluta sem hýsir bókasafn, kennara- og starfsmannarými, raungreinastofu, tónlistarstofu og frístund. Viðbyggingin sem tekin var í notkun í lok síðasta árs er nú að verða fullkláruð og hefur eldra íþróttahús verið rifið.
Plássið sem skapaðist við niðurrif íþróttahússins gerir það að verkum að lóðin nýtist betur en áður.
Er áætlað að framkvæmdum við bygginguna og fyrri áfanga lóðar verði að mestu lokið seint í nóvember n.k.
Heimild: Borgarbyggð.is