Home Fréttir Í fréttum Sigldu með 20 tonna ljósleiðarakefli yfir Berufjörð

Sigldu með 20 tonna ljósleiðarakefli yfir Berufjörð

351
0
Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Miklar tilfæringar voru í Berufirði í á þriðjudag þegar siglt var yfir fjörðinn með risavaxið kefli. Á keflinu voru næstum 4 kílómetrar af neðansjávarljósleiðara. Hann er hluti af nýju stýrineti fyrir virkjanir og spennistöðvar í landinu.

Það var ekki annað hægt en að stoppa þegar við ókum fram hjá þessu sjófari sem beið þess að sigla af stað skammt frá Teigarhorni við Djúpavog.

<>

Starfsmenn Sjótækni voru að gera sig klára til að leggja sæstreng yfir fjörðinn. „Við erum með kapallagnabúnað á pramma sem keflið er upp á.

Svo er þetta bara lagt út og yfir fjörðinn þvert yfir, fjórir kílómetra tæpir. Þetta er 20 tonn. Það þarf eitthvað meira en árabát en sem betur fer þá fer hann alla leið niður á botn.

Þar er 60 metra dýpi þannig að það á enginn að sigla á þetta,“ segir Kjartan Jakob Hauksson, framkvæmdastjóri Sjótækni.

Nýtt ljósleiðarkerfi gæti bætt stýringu og minnkað hættu á truflunum

Það eru Orkufjarskipti, félag í eigu Landsvirkjunar og Landsnets, sem lögðu þennan sæstreng. Hann verður hluti af sérstökum ljósleiðarahring um landið sem jafnframt verður tengdur um hálendið yfir Sprengisand.

Þannig verður til örugg, sjálfstæð  ljósleiðaratenging á milli virkjana og spennistöðva. Kerfið getur flýtt og bætt stýringu; stytt viðbragðstíma og jafnvel dregið úr líkum á rafmagnsleysi.

Hafa þverað Berufjörð tvisvar áður

Ekki var hægt að biðja um betra veður til að leggja sæstreng í Berufirði. Pramminn var ekki hannaður fyrir stórsjó en hefur reynst Sjótækni vel, enda nokkuð um að strengir séu lagðir þvert yfir firði.

„Já, það er nokkuð algengt. Við erum búnir að þvera til dæmis þennan fjörð tvisvar áður, 1992 og næstu firði hér við hliðina líka 1993. Þannig að við erum búnir að þvera ansi marga firði á landinu,“ segir Kjartan.

Ljósleiðarinn nýtist líka þannig að fjarskiptafyrirtæki mega leigja flutningsgetu og þá hafa sveitabæir getað tengst þar sem það hentar.

Kerfið verður mögulega fullgert eftir 2 til 3 ár.

Heimild: Ruv.is