Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur hafnað kröfu um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Reykhólahrepps að veita framkvæmdaleyfi fyrir vegi um Teigsskóg.
Sveitastjórnin veitti framkvæmdaleyfið fyrir Vestfjarðavegi á milli Bjarkalundar og Skálaness í febrúar.
Upphaflega gerði Landvernd kröfuna en í framhaldinu kærðu fjórir eigendur Grafar í Reykhólahreppi, tveir eigendur Hallsteinsness í Reykhólahreppi, Náttúruverndarsamtök Íslands, Fuglaverndarfélag Íslands, líka fyrrgreinda ákvörðun sveitarstjórnar Reykhólahrepps.
Í niðurstöðu nefndarinnar segir meðal annars að ekki sé um það deilt og engum blöðum um það að fletta að brýn nauðsyn sé á samgöngubótum á svæðinu.
Að teknu tilliti til þess svigrúms sem sveitarstjórn hafi fellst nefndin á að sveitarstjórnin hafi fært ásættanleg rök fyrir því að þeir samfélagslegu hagsmunir sem felast í auknu umferðaröryggi vegfarenda um sveitarfélagið til frambúðar feli í sér brýna nauðsyn.
Fyrir liggi að lagning vegarins myndi alltaf raska þeim verndarhagsmunum sem þar eru tilgreindir, þótt í mismiklum mæli yrði. Um almannahagsmuni sé að ræða og hafi fjölmargir kostir verið skoðaðir áður en ákvörðun var tekin.
Loks bendir nefndin á, og vísar í matskýrslu, að allar þær veglínur sem skoðaðar hafa verið liggja að mestu um land í einkaeigu en ekki um land í eigu sveitarfélagsins eða ríkis. Yrði ekki farið um land það sem kærendur eiga yrði eftir atvikum farið með umræddan veg um land annarra landeigenda, en um er að ræða á þriðja tug landareigna.
„Mismunandi leiðarval myndi því ávallt leiða til íþyngjandi ákvörðunar gagnvart einhverjum landeigendum. Verður því ekki séð að sjónarmið um meðalhóf gagnvart kærendum sérstaklega, umfram aðra landeigendur, hafi átt að standa hinni kærðu ákvörðun í vegi,“ segir í úrskurðinum.
Úrskurð nefndarinnar, sem kveðinn var upp í dag, má lesa hér.
Heimild: Visir.is