Nýja brúin í Hrútey er gamla Blöndubrúin sem var vígð 1897. Hún var flutt í Svartárdal og brúaði þar Svartá við Steinárbæina og stóð þar í tæp 40 ár.
Brúin var nú aftur flutt heim á Blönduós og hefur fengið yfirhalningu og nýtt hlutverk.
Elsta brú landsins hefur fengið yfirhalningu og mun þjóna nýjum tilgangi sem göngubrú yfir í Hrútey.
Gamla Blöndubrúin var vígð árið 1897 og gegndi veigamiklu hlutverki á sínum tíma og var mikil samgöngubót fyrir Blönduós og Austur-Húnavatnssýslu.
Hún stóð á sama stað til ársins 1962 þegar hún var flutt fram í Svartárdal og brúaði þar Svartá við Steinarbæina. Mjólkur- og olíuflutningabílar fluttu birgðir sínar yfir brúna í tæp 40 ár þar til hún þjónaði ekki lengur hlutverki sínu.
Þá voru bílar orðnir of breiðir og þurftu að fara yfir Svartá á vaði til að sækja mjólkina á Steinárbæjunum.
Ákveðið var að varðveita brúna og finna henni nýtt hlutverk vegna merku sögu hennar. Stálgrindin er í góðu lagi og verður komið fyrir á undirstöðunum en nýtt brúargólf verður smíðað úr timbri og komið fyrir handriði á henni.
Skipulags- umhverfis- og umferðarnefnd Blönduósvæjar samþykkti byggingar- og framkvæmdaleyfi við uppsteypun á undirstöðum fyrir brúna.
Skipulagsfulltrúa hefur verið falið að gefa út framkvæmdarleyfi og verkfræðistofan Stoð ehf., með Atla Gunnari Arnórssyni í fararbroddi, tekur að sér verkefnið að hanna og reisa nýju brúna.
Heimild: Frettabladid.is