Home Fréttir Í fréttum Ljúka við að leggja ljósleiðara yfir Kjöl

Ljúka við að leggja ljósleiðara yfir Kjöl

178
0
Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV

Fyrirhuguð lagning 84 km ljósleiðara yfir Kjöl er ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

<>

Míla lýkur því síðasta áfanga af þremur við að tengja Suðurland og Norðurland með ljósleiðara í nóvember.

Skipulagsstofnun hefur tekið ákvörðun um að fyrirhuguð lagning ljósleiðara frá Hveravöllum til Skagafjarðar skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Síðasti áfangi af þremur
Í ágúst barst Skipulagsstofnun tilkynning frá Mílu ehf. þar sem tilkynnt var um fyrirhugaða lagningu ljósleiðara. Leiðin 84 kíló­metra löng, frá Hvera­völl­um til Skaga­fjarðar.

Í fyrra lauk Míla við lagn­ingu ljós­leiðara frá Blá­fells­hálsi að Hvera­völl­um. Þaðan er nú haldið áfram, að Þórisvatni um Eyvindarstaðarheiði og Mælifellsdal og endað við Steinsstaði í Skagafirði.

Það er síðasti áfangi af þremur við að tengja Suðurland og Norðurland með ljósleiðara.

Samkvæmt upplýsingum frá Mílu er fyrirtækið í startholunum með framkvæmdir og bíður nú eftir grænu ljósi frá Umhverfisstofnun.

Framkvæmdinni á að ljúka í nóvember. Fimmtán kílómetrar ljósleiðarans eru innan friðlandsins í Guðlaugstungum.

Áhrif framkvæmda óveruleg
Ljósleiðarinn verður plægður í jörðu á 50-60 cm dýpi. Á stöku stað gæti þó þurft að leggja hann á 40 cm dýpi. Leiðin einkennist af heiðarlöndum, votlendi, mólendi og melum.

Umhverfisstofnun telur að reynsla síðustu ára hafi sýnt að ef vel er að verki staðið við plægingu og frágang plógfars verða ummerki um framkvæmdina lítil og geta jafnvel horfið algerlega.

Áhrif framkvæmdarinnar eru að mati stofnunarinnar óveruleg og þeirra gætir fyrst og fremst á meðan framkvæmdir standa og svæðið er að komast í fyrra horf að loknum frágangi.

Heimild: Ruv.is