
Leigufélagið Bríet fékk í gær afhentar tvær íbúðir þegar Soffía Guðmundsdóttir framkvæmdarstjóri Leigufélagsins Bríetar og Finnur Ólafsson oddviti Kaldrananeshrepps skrifuðu undir samning um kaup Bríetar á íbúðunum tveimur sem eru í nýbyggðu parhúsi á Drangsnesi.
Bríet kaupir íbúðirnar fullbúnar af sveitarfélaginu sem sá um byggingu þeirra. Með kaupunum er stuðlað að aðgengi að íbúðum til langtímaleigu, en vöntun hefur verið að slíkum íbúðum í nokkurn tíma í sveitarfélaginu.
Leigufélagið Bríet sem er í eigu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er sjálfstætt starfandi leigufélag sem er rekið án hagnaðarsjónarmiða að norrænni fyrirmynd, var stofnað til þess að stuðla að uppbyggingu og styrkja leigumarkað með sérstaka áherslu á landsbyggðina.
Viðstaddir afhendinguna voru einnig Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra ásamt öðrum fulltrúum Bríetar og væntanlegum leigjendum íbúðanna sem jafnframt fengu afhenta lyklana að nýju heimili sínu.
Heimild: HMS.is