Mikið framboð af skrifstofuhúsnæði kemur inn á markaðinn í miðborginni á næstu árum. Forstjóri Reita segir að hefja þurfi samtal við skipulagsyfirvöld um að fá heimild til að breyta skrifstofuhúsnæði í íbúðahúsnæði.
Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita, segir að eigendur skrifstofurýmis í miðbænum þurfi að hefja samtal við skipulagsyfirvöld um að fá heimild til þess að breyta skrifstofuhúsnæði í íbúðarhúsnæði. Þannig verði hægt að bregðast við því mikla framboði skrifstofuhúsnæðis sem er í farvatninu.
„Við og aðrir sem eiga í hlut þurfum að taka samtal við skipulagsyfirvöld í borginni um að fá heimild fyrir breyttri notkun á húsnæði,“ segir Guðjón.
Eins og fram kom í umfjöllun Markaðarins um miðjan ágúst er útlit fyrir að framboð skrifstofuhúsnæðis í miðborginni muni aukast um meira en 40 þúsund fermetra á næstu árum.
„Það er ekki líklegt að þessir tugir þúsunda fermetra af skrifstofurými sem losna við flutning Landsbankans, flutning á skrifstofum Alþingis og uppbyggingu á nýju húsnæði, muni fyllast auðveldlega.
Það væri mjög slæmt fyrir borgina og alla hluteigandi ef langan tíma tæki að koma þessum fermetrum í vinnu.“
Stóran hluta má rekja til uppbyggingar á nýjum höfuðstöðvum Landsbankans við Austurhöfn. Uppbyggingin gerir bankanum kleift að komast úr 21 þúsund fermetra skrifstofurými í 10 þúsund fermetra.
Þannig mun losna um verulegt rými þegar bankinn flytur starfsemina en verklok eru áætluð árið 2022.
Nýja húsnæðið við Austurhöfn mun spanna 16.500 fermetra. Landsbankinn gerir ráð fyrir að nýta 60 prósent hússins, eða um 10 þúsund fermetra, en leigja frá sér eða selja um 40 prósent, eða um 6.500 fermetra.
Þá var fyrsta skóflustungan að nýbyggingu fyrir skrifstofur Alþingis tekin fyrr á þessu ári. Alþingi hefur um árabil leigt aðstöðu, sem nemur um 4.500 fermetrum og er að mestu leyti í eigu Reita, fyrir starfsemi sína í nokkrum húsum við Austurstræti.
Haft var eftir Garðari Hannesi Friðjónssyni, forstjóra Eikar fasteignafélags, í umfjöllun Markaðarins, að Eik gæti brugðist við breyttum aðstæðum á markaði með því að umbreyta eignum sínum og notkunarmöguleikum þeirra.
Til dæmis með því að breyta atvinnuhúsnæði í íbúðarhúsnæði. „Það er ekki útilokað að það verði breytt notkun á eignum okkar niðri í bæ.“
Á vegum Framkvæmdasýslu ríkisins er nú unnið að gerð frumathugunar vegna nýs deiliskipulags á Stjórnarráðsreitnum sem markast af Skúlagötu, Klapparstíg, Lindargötu og Ingólfsstræti.
Samkvæmt svari frá forsætisráðuneytinu við fyrirspurn Markaðarins er gert er ráð fyrir því að öllum ráðuneytum að undanskildu forsætisráðuneyti verði komið fyrir á reitnum. Einnig að þar verði húsnæði fyrir stofnanir ríkisins, dómstóla, þjónustu og stoðþjónustu.
Fyrsti áfangi þessa verkefnis er flutningur heilbrigðisráðuneytisins og félagsmálaráðuneytis í fyrrum húsnæði Hafrannsóknastofnunar að Skúlagötu 4, sem er áætlaður fyrri hluta ársins 2022. Eins og í tilfelli Landsbankans, mun losna um verulegt skrifstofurými við þessa flutninga.
Heimild: Frettabladid.is