Verkfræðistofan Mannvit hefur höfðað mál gegn Austurhöfn, sem stendur að uppbyggingu íbúða- og verslunarhúsnæðis við hlið Hörpu, vegna stöðvunar verks og slita á samningi.
Mannvit fer fram á 170 milljónir vegna þessa, en greint er frá málarekstrinum í ársreikningi Austurhafnar.
Þar segir að ef félagið tapi málinu geti það haft „verulega fjárhagslega þýðingu“.
Í júní síðastliðnum breyttu Arion banki og fjárfestingafélagið Apartnor 900 milljóna króna víkjandi láni til Austurhafnar í hlutafé.
Auk þess að vera lánveitandi verkefnisins á Arion banki 20 prósenta hlut í Austurhöfn.
Apartnor, sem er meðal annars í eigu Hreggviðs Jónssonar og Eggerts Þórs Dagbjartssonar, fer með 80 prósenta hlut.
Alls verður húsnæðið átta þúsund fermetrar að stærð og hefur Austurhöfn nú þegar selt 2.700 fermetra verslunar- og skrifstofurými til fasteignafélagsins Regins.
Á kynningarfundi vegna uppgjörs Regins í síðustu viku sagði Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins, að framkvæmdir við Austurhöfn hefðu tafist af ýmsum ástæðum og að Reginn, sem hefur greitt hátt í 70 prósent af kaupverðinu, taki við húsnæðinu í haust.
Náðst höfðu samningar við leigutaka um rekstur í húsnæðinu en þau áform frestuðust vegna COVID-19.
Stefnt er að því að húsnæðið verði tekið í notkun næsta vor.
Heimild: Frettabladid.is