Home Fréttir Í fréttum Stækkun íþróttamiðstöðvarinnar fyrirhuguð

Stækkun íþróttamiðstöðvarinnar fyrirhuguð

174
0

Í gær var undirrituð viljayfirlýsing að gerður verði samningur um uppbyggingu við íþróttamiðstöðina á Egilsstöðum. Það voru þeir Davíð Þór Sigurðarson, formaður Íþróttafélagsins Hattar, og Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, sem skrifuðu undir viljayfirlýsinguna.

<>

Stefnt er að því að reisa fimleikahús, sem viðbyggingu við íþróttahúsið, og ganga frá búningsherbergjum. Hluti uppbyggingarinnar felst í að endurnýja gólfefni í aðalsal íþróttamiðstöðvar, en fyrirhugað er að ráðist verði í það nú í ágúst. Stefnt er að því að samningurinn feli í sér framlög frá Fljótsdalshéraði og framkvæmdir á vegum Íþróttafélagsins Hattar geti orðið árin 2015 til 2018.

Að sögn Björns Ingimarssonar, bæjarstjóra Fljótsdalshéraðs, sé með undirritun viljayfirlýsingarinnar stigið fyrsta skrefið á þeirri braut að leysa aðgengisvanda Íþróttamiðstöðvarinnar á Egilsstöðum og að hann, auk kjörinna fulltrúa, hafi fulla trú á því að Íþróttafélagið Höttur sé vel til þess fallið að leiða þá vinnu sem framundan er á farsælan hátt.

Davíð Þór, formaður Hattar segir að viljayfirlýsing sem þessi skipti íþróttafélagið miklu máli enda hafi aðstaðan innanhúss hamlað kröftugu starfi þeirra deilda sem starfa innan Hattar. Nýting íþróttamannvirkja innanhúss er sprungin og aðstaða fimleikadeildar ekki viðunandi. Með tilkomu sérstaks fimleikahúss batni aðstaða allra deilda innan Hattar til muna, fimleikar fái aðstöðu sem styrkir og hæfi þeirra starfi betur og aðrar deildir fái aukin aðgang að núverandi íþróttamannvirki.

Það er von allra innan Hattar að fyrirtæki og einstaklingar standi að baki félaginu við að láta þetta verða að veruleika en lykillinn að því er að framkvæmdakostnaði sé haldið í lágmarki á öllum stigum verkefnisins.

Íþróttafélagið Höttur rekur átta deildir sem bjóða upp á æfingar hjá börnum, unglingum og fullorðnum á Fljótsdalshéraði en á árinu 2014 stunduðu rúmlega 900 einstaklingar æfingar hjá Hetti.

Á myndinni frá undirrituninni eru talið frá vinstri : Adda Birna Hjálmarsdóttir, Óðinn Gunnar Óðinsson, Arnór Daði Davíðsson, Guðjón Hilmarsson, Davíð Þór Sigurðarson, Erika Rún Davíðsdóttir, Hreinn Halldórsson, Anna Alexandersdóttir, Björn Ingimarsson, Gunnar Jónsson og Guðlaugur Sæbjörnsson.

Heimild: Fljotsdalsherad.is