Endurnýjun á raflínunni milli Búrfells og Sigöldu stendur nú yfir. Þegar henni er lokið tvöfaldast flutningsgeta línunnar en viðgerðum á að ljúka í haust. 30 manna flokkur frá Bosníu Hersegóvínu starfar við verkið. Mennirnir eru komnir til Íslands til að endurbæta Sigöldu 3, 220 kílóvolta háspennulínu sem liggur milli Búrfells og Sigöldu. Gert er ráð fyrir að kostnaður við endurbæturnar nemi um 800 milljónum króna. Verið er að taka niður gamla leiðarann og nýr og sverari leiðari verður settur upp. Við það tvöfaldast flutningsgeta línunnar, fer úr 300 megawöttum í 600.Meðal þess sem þarf að gera er að endurbyggja sex möstur en um hundrað möstur halda línunni uppi.Sigöldulína 3 er 37 kílómetrar að lengd og var reist árið 1975. Hún er því komin til ára sinna. Síðan línan var tekin í notkun hefur raforkuframleiðsla aukist mjög og flutningsgeta línunnar dugar ekki lengur í bilana- og viðhaldstilfellum. Í slíkum tilfellum þarf hún að geta flutt alla þá raforku sem framleidd er i efri hluta Þjórsár.Leiðaraskiptin voru boðin út á Evrópska efnahagssvæðinu og átti fyrirtækið Elnos lægsta boð. Gert er ráð fyrir að verklok verði í september og línan komist þá í fullan rekstur.
Heimlid: Rúv.is