Varnirnar skiptast í tvo garða fyrir ofan þorpið á Patreksfirði. Verkið á að klárast 2023 og kostar 1,3 milljarða króna. Fjármagnið kemur aðallega úr Ofanflóðasjóði.
Kristinn Gylfason er mælingamaður hjá Suðurverk.
„Við erum að fara að flytja efni, um 300 þúsund rúmmetra. Flytja það í flágafleigana sem eiga eftir að hækka hérna upp um einhverja þrettán, fjórtán metra miðað við það sem er núna þannig að það er rosalegt magn sem kemur þar í,“ segir hann.
Kristinn segir verkið flókið og að mörgu þurfi að huga.
„Það er mikil hætta á vatni hérna og við þurfum að hugsa mjög vel hvernig á að útfæra og tryggja að það endi ekki bara í kjallaranum hjá fólki. Við erum búnir að eyða miklum tíma í að leiða vatn úr fyllingunum hjá okkur.“
Auka öryggistilfinningu
Fernt fórst í snjóflóði sem féll á Patreksfirði 1983 og 19 hús skemmdust. Einn varnargarður er þegar til staðar fyrir ofan þorpið sem lokið var við 2015. Hús voru síðast rýmd á Patreksfirði vegna snjóflóðahættu í mars á þessu ári.
Iða Marsibil Jónsdóttir, forseti bæjarstjórnar í Vesturbyggð segir nýju garðana auka öryggistilfinningu íbúa.
„Samt sem áður er það nú þannig að íbúar á svona stöðum lifa ekki í ótta alla daga við ofanflóð. En vissulega voru til dæmis atburðirnir á Flateyri í vegur áminning um það að náttúran er gríðarlega öflug á þessu landsvæði.“
Heimild: Ruv.is