Home Fréttir Í fréttum Óvissa um framtíð myglurannsókna í húsbyggingum

Óvissa um framtíð myglurannsókna í húsbyggingum

374
0
Ólafur Wallevik, forstöðumaður Rannsóknastofu byggingariðnaðarins í mygluskálanum í Keldnaholti Mynd: Ruv.is
Allt stefnir í að rannsóknir á myglu í íslenskum húsum leggist af um áramótin þegar Rannsóknarstofa byggingariðnaðarins hættir.
Ólafur Wallevik, forstöðumaður rannsóknastofunnar óttast að vandamálum í íslenskum byggingum eigi eftir að fjölga. Stofan hefur gert átak í að finna út orsakir myglu í húsum hér á landi

Gerðu átak í myglurannsóknum

Ólafur er forstöðumaður Rannsóknarstofu byggingariðnaðarins við Nýsköpunarmiðsöð Íslands, prófessor við Háskólann í Reykjavík og við háskólann í Peking í Kína.

<>

Rannsóknastofa byggingariðnaðarins er hluti af Nýsköpunarmiðstöð sem tilkynnt var í febrúar að yrði lögð niður. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir iðnaðarráðherra sagði þá að hluta verkefna hennar mætti vel sinna af aðilum á markaði.

Allt að átján hafa starfað á rannsóknastofunni. Eftir að ráðherra tilkynnti um fyrirætlan sína hafa nokkrir fengið sér aðra vinnu. Ólafur segir að framtíð byggingarannsókna sé óljós.

„Það er verið að reyna að finna einhvern farveg fyrir byggingarannsóknir en eins og staðan er í dag þá stefnir í það að það verði lagt niður um áramótin.“

Rannsóknastofan ásamt háskólunum og sex verkfræðistofum hafa gert átak, síðustu þrjú ár, í að finna orsök myglu í íslenskum húsum.

Af hátt í tuttugu verkefnum snúa 7 beinlínis að myglu í íslenskum húsum. Mörg þeirra eru langtímaverkefni.

Til dæmis er verið að rannsaka íslenska útvegginn, sýni hafa verið tekin úr öllum spóna- og gipsplötum og krossviði, verið er að prófa efni sem hægir á myglu o.m.fl.

Rignir upp á við á Íslandi

Ef ekki finnist leið til að halda þeim áfram eigi vandamálunum eftir að fjölga. Stöðugt sé verið að flytja nýjar lausnir til landsins.

„Við höfum sérstöðu algerlega á Íslandi. Það rignir upp á við og við erum með svo rosamargar frostþíðuumferðir þannig að við getum ekki alltaf tekið lausnir frá öðrum löndum og sett yfir á Ísland. Við þurfum líklega að aðlaga það Íslandi.“

Stefnt er að því að setja á stofn sjóð sem allir geti sótt í en ekki sé búið að finna lausn fyrir samfelldar rannsóknir og þær leggist líklega af.

„Og vörn samfélagsins á móti nýjum vágestum. Verkfræðistofurnar munu alltaf leysa einstaka verkefni en það verður ekki gert í þágu samfélagsins.“

Gríðarlegur kostnaður vegna tjóna

Gríðarlegur kostnaður sé hér á landi vegna vatnstjóna. Tryggingafélögin greiði tvo til þrjá milljarða vegna þeirra á hverju ári.

„Örugglega fer svipuð upphæð í venjuleg rakavandamál. Þannig að við erum að tala um rosalega stórar upphæðir. Og þær eiga eftir hækka.“

Ólafur vill að hluti af því fjármagni sem fer í byggingarannsóknir verði notað til að fjármagna rannsóknastofu á vegum háskólanna. Alla vega megi ekki leggja rannsóknastofuna niður um áramótin.

„Af því að við erum í Covid-krísu og ef það verður lagt niður núna þá vitum við ekkert hvað verður um framhaldið. Það er svo fljótt að rífa niður en til að byggja upp eitthvað það tekur yfirleitt lengri tíma.“

Heimild: Ruv.is