Home Fréttir Í fréttum Hluti Vestfjarðavegar boðinn út

Hluti Vestfjarðavegar boðinn út

240
0

Vegagerðin býður út hluta af fyrsta áfanga Vestfjarðavegar (60) um Dynjandisheiði. Þar er um að ræða tvo hluta verksins á sitt hvorum enda Dynjandisheiðar, upp úr Vatnsfirði að sunnan og niður í Arnarfjörð (Dynjandisvog) að norðan.

<>

Í útboðsauglýsingu segir að verkið felist í nýbyggingu Vestfjarðavegar á um 10 km kafla. Verkið skiptist í tvo kafla. Annars vegar 5.690 m langan kafla við Þverdalsá (vegkafli 60-35) og hins vegar 4.320 m langan kafla fyrir Meðalnes (vegkafli 60-38).

Vegurinn við Þverdalsá er að mestu leyti byggður í nýju vegstæði en að hluta til í núverandi vegstæði. Vegurinn fyrir Meðalnes er alfarið byggður í nýju vegstæði.

Stefnt er að því að opna útboðið upp úr miðjum ágúst.

Dynjandisheiði-Framkvæmdasvæði

Matsskýrsla komin á vefinn

Nýverið var gefin út matsskýrsla fyrir Vestfjarðaveg (60) um Dynjandisheiði og Bíldudalsveg (63) frá Bíldudalsflugvelli.

Matsskýrslan nær til lagningar nýs 33 – 40 km langs kafla Vestfjarðavegar (60) um Dynjandisheiði sem nær frá Hörgsnesi í Vatnsfirði langleiðina að Mjólkárvirkjun í Borgarfirði, sem og nýs 29 km langan kafla Bíldudalsvegar (63) sem nær frá Bíldudalsflugvelli á Hvassnesi að Vestfjarðavegi í Helluskarði á Dynjandisheiði.

Markmið framkvæmdanna er að bæta samgöngur um Vestfirði með því að tryggja áreiðanlegar og öruggar samgöngur um Vestfjarðaveg og Bíldudalsveg. Nýir vegir verða með bundnu slitlagi og uppbyggðir með tilliti til snjóa. Hönnunarhraði veganna verður almennt miðaður við 90 km/klst. hámarkshraða.

Matsskýrsluna má lesa hér á vef Vegagerðarinnar.

Heimild: Vegagerðin