Home Fréttir Í fréttum Gert að rífa nýtt hús sem átti að hýsa legsteinasafn

Gert að rífa nýtt hús sem átti að hýsa legsteinasafn

204
0
Páli Guðmundssyni var með dómnum gert að fjarlægja nýtt hús, hér næstlengst til vinstri á mynd, sem hýsa átti legsteinasafn. Lengst til vinstri er Pakkhúsið sem má samkvæmt dómnum standa áfram. Fyrir miðri mynd er gamla fjósið og turninn en þessar byggingar allar hýsa listasafn Páls. Til hægri er svo Gamli bærinn sem Sæmundur Ásgeirsson rekur í gistiþjónustu og Húsafellskirkja lengst til hægri. Ljósm. mm/skessuhorn.is

Héraðsdómur Vesturlands kvað í gærmorgun upp þann dóm að Páli Guðmundssyni á Húsafelli 2 í Borgarfirði skuli gert að fjarlægja innan tveggja mánaða af lóðinni Bæjargili í Húsafelli nýtt steinsteypt hús sem byggt var til að hýsa legsteinasafn.

<>

Páll var hins vegar sýknaður af kröfu stefnanda, sem er Sæmundur Ásgeirsson í Húsafelli I, að þurfa að fjarlægja Pakkhús af lóðinni Bæjargili, en stefnandi hafði krafist þess fyrir dómi að það hús yrði einnig fjarlægt af lóðinni.

Sæmundur rekur gistiheimilið Gamla bæ á Húsafelli og mun vera sameiginlegt og óskipt bílastæði fyrir þessum lóðum samkvæmt þinglýstri kvöð.

Taldi dómari Sæmund hafa lögvarða hagsmuni að gæta og vísaði m.a. í meginreglur eignarréttar um grenndarrétt.

Byggingaleyfi fyrir bæði Pakkhús og Legsteinasafn byggðu á stoð í deiliskipulagi fyrir Húsafell 2 sem sveitarstjórn Borgarbyggðar hafði samþykkt 12. febrúar 2015.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafði hins vegar með úrskurði 6. desember 2018 kveðið upp þann úrskurð að deiliskipulagið hefði ekki tekið gildi með lögformlegri réttri birtingu í B-deild Stjórnartíðinda og teldist því deiliskipulagið ógilt með vísan í skipulagslög.

Jafnframt felldi úrskurðarnefndin úr gildi byggingarleyfi vegna legsteinasafnsins þar sem það átti sér hvorki stoð í gildu skipulagi né hefði sætt málsmeðferð í samræmi við undantekningaákvæði skipulagslaga um grenndarkynningu.

Dómara í málinu þótti sýnt að stefnda hefði mátt vera það ljóst að allar nýframkvæmdir við byggingu legsteinahúss yrðu á hans ábyrgð þar sem þegar var komin upp deila um réttmæti byggingarinnar með tilliti til skipulags svæðisins þegar framkvæmdir hófust.

Því kvað dómarinn upp þann úrskurð að legsteinahúsið skyldi fjarlægt af lóðinni og var Páli sömuleiðis gert að greiða tvær milljónir króna í málskostnað stefnanda. Gjafsóknarkostnaður stefnda greiðist hins vegar úr ríkissjóði.

Mál þetta hefur eins og fram hefur komið í fréttum Skessuhorns á liðnum árum velkst lengi um í kerfinu og angar þess meðal annars ratað inn á borð úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál, til umboðsmanns Alþingis og nú héraðsdóm.

Samkvæmt heimildum Skessuhorns hefur ekki verið tekin ákvörðun um hvort niðurstöðu dómsins verði áfrýjað til æðra dómsstigs, eða hvort Páli og félögum hans sé nauðugur sá kostur að fjarlægja legsteinahúsið.

Sömuleiðis hafa málsaðilar ekki ákveðið hvort látið verði á það reyna fyrir dómi hvort sveitarfélagið sé bótaskilt vegna mistaka á skipulagssviði Borgarbyggðar, varðandi skipulag Bæjargils sem aldrei hlaut lögformlegt gildi, ranga hnitsetningu og fleiri atriði. Í það minnsta er skaði Páls Guðmundssonar og félaga hans mikill vegna byggingar legsteinahúss, eða um 40 milljónir króna enda er húsið að mestu uppbyggt og frágengið.

Borgarbyggð ákvað nú í vor að hefja vinnu við gerð nýs aðalskipulags, en landið hefur fram til þessa verið skilgreint til landbúnaðarnota.

Nýtt aðalskipulag er forsenda þess að hægt verði að hefja starfsemi við Listasafn Páls Guðmundssonar eins og lengi hefur staðið til.

Sjá dóm Héraðsdóms Vesturlands í heild sinni hér

Heimild: Skessuhorn.is