Home Fréttir Í fréttum Fjarðarheiðargöngum flýtt – framkvæmdir hefjast 2022

Fjarðarheiðargöngum flýtt – framkvæmdir hefjast 2022

667
0
Mynd: Ruv.is
Framkvæmdir við Fjarðarheiðargöng milli Egilsstaða og Seyðisfjarðar eiga að hefjast árið 2022 samkvæmt nýrri samgönguáætlun til fimm ára sem samþykkt var á Alþingi í gærkvöld.

Gert er ráð fyrir því að göngin kosti 35 milljarða og ríkið fjármagni framkvæmdina til hálfs á fjárlögum og innheimti veggjöld fyrir hinum helmingnum.

<>

Framkvæmdin er ekki hluti af samvinnuverkefnum ríkis og einkaaðila í vegagerð.

Í áætluninni segir: „Undanfarin ár hefur verið unnið við Dýrafjarðargöng en áætlað er að framkvæmdum við þau muni ljúka á árinu 2020.

Í þessari áætlun er gert ráð fyrir að framkvæmdir hefjist við Fjarðarheiðargöng á árinu 2022 og í framhaldi af þeim verði síðan ráðist í gerð jarðganga á milli Seyðisfjarðar og Mjóafjarðar (Seyðisfjarðargöng) og Mjóafjarðar og Fannardals (Mjóafjarðargöng).

Einnig mun verða leitað leiða til þess að fjármagna tvöföldun Hvalfjarðarganga og jarðgöng í Reynisfjalli með samstarfi við einkaaðila.“

Fjarðarheiðargöng verða yfir 13 kílómetra löng og mun framkvæmdin taka langan tíma.

Á fyrsta tímabili. Á árunum 2020-2024 verður 3,2 milljörðum króna veitt í göngin. Á öðru tímabili, 2025 – 2029 fara 11,5 milljarðar í framkvæmdina og á þriðja tímabili 2030-2034 fara þrír milljarðar í verkefnið. Afgangurinn verður sem áður segir fjármagnaður með veggjöldum líklega í gegnum óstofnað félag.

Þá má nefna að bjóða á út Axarveg á næsta ári en ríkið ætlar að greiða helming kostnaðar á móti einkaaðila.

Endurbættur Suðurfjarðavegur á milli Reyðarfjarðar og Breiðdalsvíkur er á áætlun á þriðja tímabili. Á veginum eru fjórar einbreiðar brýr og mjög mjór og hlykkjóttur kafli milli Stöðvarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar með erfiðum blindhæðum.

Í nefndaráliti kemur fram skýr stefna um að veginum verði flýtt skapist til þess möguleikar eða svigrúm í fjármálaáætlun.  Einnig verði hægt að byrja fyrr á einstökum vegarköflum þar sem brýn þörf er á útbótum.

Í áætluninni eru talsverðar upphæðir sem ekki hefur verið ráðstafað en eru ætlaðar í viðhald og úrbætur til að bæta öryggi og lagfæra lélega malarvegi.

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður og fulltrúi Framsóknarflokksins í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis, segir að á næstu 15 árum eigi að fækka einbreiðum brúm á hringveginum um meira en 30 en þær eru nú 35.

Heimild: Ruv.is