„Þetta hefur gengið með ólíkindum vel,“ segir Dagný Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Sky Lagoon. Heimsfaraldurinn hafi ekki sett strik í reikninginn og áætlun hafi gengið hraðar ef eitthvað er. Í sumar er lögð áhersla á að klára útivinnu og landmótun og búið er að loka byggingunni á lóðinni. Lóðin er vestast á Kársnesinu og nær yfri um þrjá hektara.

Lónið er fyrsti áfangi framkvæmdanna og er búið að fjármagna hann að fullu.
Ekki er búið að ákveða hvernig framkvæmdir verður ráðist í þegar lónið er tilbúið en mikil uppbygging er fyrirhuguð á svæðinu.
„Við erum með nokkra möguleika í stöðunni þannig að við getum stækkað til norðurs og suðurs,“ segir Dagný.

Hönnunarteymið að mestu íslenskt
Dagný vill ekki opinbera að svo stöddu hverjir standa að hönnuninni en segir teymið vera alþjóðlegt en að meirihluta Íslendinga. Sótt hafi verið í tæknilega þekkingu frá útlöndum varðandi hönnun á lónskerfinu sjálfu.
Fyrirtækið Nature restort ehf. heldur utan um verkefnið og er framkvæmdin búin að vera í undirbúningi í vel yfir tíu ár. Norður-ameríska fyrirtækið Pursuit er rekstraraðili lónsins og segir Dagný fyrirtækið taka þátt í markaðssetningu og sölu af fullum þunga.

Baðlónið verður með 70 metra löngum óendanleikakanti sem gefur þá tilfinningu að lónið sameinist við sjóinn þegar horft er úr lóninu. Útsýnið verður yfir Bessastaði og Reykjanesfjallgarðinn.
Kanadíska fyrirtækið VIAD á Pursuit og keypti 51 prósenta hlut í fyrirtækinu Geothermal Lagoon, eignarhaldsfélagi Nature resort ehf, fyrir 11 milljónir dollara eða 1,3 milljarða í fyrrasumar.
Heimild: Ruv.is