Home Fréttir Í fréttum Dynjandisheiði: Tveir kaflar tilbúnir til útboðs

Dynjandisheiði: Tveir kaflar tilbúnir til útboðs

272
0

Tveir vegarkaflar á Dynjandisheiði eru tilbúnir til útboðs og verður það auglýst þegar álit Skipulagsstofnunar liggur.

<>

Frummatsskýrsla er nú til umfjöllunar og verður formleg matsskýrsla lögð fram fljótlega.

Vonast er til þess að álit Skipulagsstofnunar á matsskýrslunni muni liggja fyrir í sumar.

Nær fyrirhuguð vegagerð til framkvæmdar á Vestfjarðavegi (60) um Dynjandisheiði og Bíldudalsvegur (63) frá Bíldudalsflugvelli að Vestfjarðavegi á Dynjandisheiði.

Lagður verður á næstu árum 35-40 km langur vegur sem nær frá Vatnsfirði að Mjólká yfir Dynjandisheiðina og nýr Bíldudalsvegur verður liðlega 28 km langur. Hann kemur í staðinn fyrir rúmlega 29 km langan veg sem liggur frá vegamótum við Flugvallarveg við Bíldudalsflugvöll upp á Norðdalsfjall og á Vestfjarðaveg rétt norðan Helluskarðs.

Vegarkaflarnir sem eru tilbúnir eru að sögn Guðmundar Vals Guðmundssonar framkvæmdastjóri þróunarsviðs Vegagerðarinnar annars vegar frá Flókalundi upp á heiðina, um 6 – 7 km langur vegur með svipaðri veglínu og nú er og hins vegar er það vegur fyrir Meðalnesið sem er milli Dynjandisvogsins og Borgarfjarðar.

Þar mun hin nýja veglína liggja með sjónum í stað þess að vera ofar í hlíðinni. Veglínan á þessum köflum er það svipuð núverandi veglínu að ekki þarf breytingu á skipulagi sveitarfélaganna, sem eru Ísafjarðarbær og Vesturbyggð.

Gangi það eftir verður mögulega hægt að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir þessum tveimur vegarköflum í júní og í framhaldinu auglýsa útboð.

Stefnt er að því að undirbúningi framkvæmda við nýjan Dynjandisveg og Bíldudalsveg ljúki á árinu 2020 og segir í frummatsskýrslu að vonast sé til þess að framkvæmdir geti hafist sama ár. Áætlað er að þær taki að lágmarki 3 ár, háð fjárveitingum í samgönguáætlun.

Mögulegt er að skipta þeim í 2-6 áfanga, háð leiðarvali. Kostnaðaráætlun vegna framkvæmdanna er háð leiðarvali og er frá 10,6 – 15,7 milljarðar króna. Í samgönguáætlun fyrir árin 2019-2033 er gert ráð fyrir samtals 9,7 milljarða króna fjárveitingu til framkvæmdarinnar.

Heimild: BB.is