Skrifað var í vikunni undir verksamninga um hvorttveggja breikkun kafla á Vesturlandsvegi um Mosfellsbæ, Skarhólabraut og um breikkun Suðurlandsvegar frá Vesturlandsvegi og framhjá Hádegismóum.
Samið var við Loftorku Reykjavík ehf. annarsvegar og Óskatak ehf. hinsvegar. Framkvæmdir hefjast strax og á að vera lokið í haust í báðum tilvikum.
Bæði verkin fela í sér breikkun þannig að kaflarnir verða 2+2 vegur að því loknu og eykur umferðaröryggi og greiðfærni.
Verkið í Mosfellsbæ felur í sér endurbyggingu og breikkun Hringvegar (1) í Mosfellsbæ milli Skarhólabrautar og Langatanga. Verkið er samstarfsverkefni Vegagerðarinnar og Mosfellsbæjar.
Um er að ræða endurgerð og breikkun vegarins á kaflanum, gerð biðstöðvar Strætó með stígtengingum, gerð hljóðvarnarveggja/mana o.fl. Lengd útboðskaflans er um 1.100 m.
Samkvæmt samþykktri verkáætlun skal vegurinn opnaður fyrir umferð á öllum fjórum akreinum eigi síðar en 15. september 2020 og verkinu að fullu lokið eigi síðar en 1. desember 2020.
Hitt verkið felst í tvöföldun Suðurlandsvegar frá núverandi vegi rétt sunnan Vesturlandsvegar og suður fyrir Bæjarháls. Tengja skal tvöföldun vegarins við núverandi vegyfirborð í báðum endum og auk þess færa rampa frá Bæjarhálsi til aðlögunar að tvöfölduðum vegi.
Breikka og lengja skal núverandi undirgöng undir Suðurlandsveg við Krókháls og endurgera stíg í gegnum þau.
Samkvæmt útboði átti verktaki að ljúka allri malbikun fyrir 1. september 2020 og ljúka frágangi endanlegs vegyfirborðs, umferðarmerkja og götulýsingar á öllum vegum sem framkvæmdin tekur þannig að hleypa megi á þá ótakmarkaðri umferð fyrir 15. september 2020.
Verkinu öllu skal vera lokið fyrir 1. nóvember 2020. Hálfs mánaðar tafir urðu á samningum vegna kærumála og kynningar.
Heimild: Vegagerðin.is