Framkvæmdir eru hafnar við frágang og innréttingar á funda- og vinnuaðstöðu fyrir nemendur Háskólans í Reykjavík í náðhúsinu svokallaða. Ljúka á framkvæmdum í haust. Kostnaðarmat er um 18 milljónir.
Framkvæmdir eru hafnar við frágang og innréttingar á funda- og vinnuaðstöðu fyrir nemendur Háskólans í Reykjavík í náðhúsinu svokallaða sem er viðbygging við braggann sem stendur við Nauthólsvík.
Er gert ráð fyrir að framkvæmdum verði lokið í haust og muni kosta 18 milljónir króna.
Byggingarfulltrúinn í Reykjavík hefur samþykkt breytingar á húsinu frá áður útgefnum aðaluppdráttum Arkibúllunnar, sem voru samþykktar árið 2018.
Náðhúsið er ein þriggja bygginga við braggann sem að loknum framkvæmdum verður hluti af frumkvöðlasetrinu Seres.
Verður þar 55 fermetra opið skrifstofu- og kynningarrými fyrir 16 til 20 manns.
„Nokkrar breytingar hafa verið gerðar frá fyrri hönnun á vegum háskólans og mun háskólinn bera kostnað af endurhönnun, frágangi og innréttingum,“ segir í svari HR við fyrirspurn Fréttablaðsins.
Framkvæmdum var hætt haustið 2018 eftir að í ljós kom að kostnaður hafði farið langt fram úr fjárheimildum, höfðu framkvæmdirnar þá kostað 415 milljónir króna.
Bar HR og borginni ekki saman um hvort búið væri að afhenda skólanum náðhúsið. „Þegar braggamálið kom upp sögðum við að það kæmi ekki til greina að setja meira fé í þessar byggingar og það hefur gengið eftir,“ segir Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í Reykjavík.
„Braggamálið er dæmi um erfitt mál sem kom upp og var tekið á af auðmýkt og ábyrgð, ekki yfirhylmingu og afneitun. Við umturnuðum öllu stjórnkerfinu í kjölfar braggamálsins og styrktum eftirlit.“
Heimild: Frettabladid.is