Bandarísku byggingavöruverslanirnar Home Depot og Lowe´s græða á því að fleiri nýta tímann heima til lagfæringa og viðhalds.
Tvær stórar verslunarkeðjur í Bandaríkjunum með byggingavörur, Home Depot og Lowe´s, sjá aukna sölu meðan á samkomu- og útivistartakmörkunum stendur.
Fleiri virðast nýta tímann til að dytta að og klára viðgerðir og viðhaldsverkefni heima fyrir, með aukinni sölu, þar á meðal á netinu, en það hefur skilað sér í mismunandi þróun hagnaðar, og hlutabréfaverðs fyrirtækjanna.
Þannig jókst salan milli ára á fyrsta ársfjórðungi reikningsárs Home Depot, sem lauk 3. maí síðastliðinn, um 7,1%, úr 26,4 milljörðum Bandaríkjadala í 28,3 milljarða.
Hagnaðurinn dróst hins vegar saman um 10,7%, úr 2,5 milljörðum dala dala í ríflega 2,2 milljarða dala dala, eða sem samsvarar um 321,1 milljörðum íslenskra króna.
Félagið, sem er stærsta verslunarkeðja í Bandaríkjunum með byggingavörur, setti um 850 milljón dali í auknar greiðslur til starfsmanna á tímabilinu, þar á meðal í greiðslur til eldri starfsmanna í aukinni hættu vegna faraldursins, sem dró umtalsvert úr hagnaði félagsins.
Craig Menear forstjóri fyrirtækisins segir að þrátt fyrir aukna sölu hafi margir sölustaðir orðið illa úti vegna reglna um samkomubönn og félagslega fjarlægð sem félagið setti á tímabilinu.
„Við fórum snemma í viðamiklar aðgerðir til að takmarka umferð viðskiptavina í verslanir okkar sem við teljum að hafi haft mikil áhrif á sölu á mörgum mörkuðum,“ segir Menear samkvæmt CNN.
Gengi bréfa Home Depot hefur lækkað um 2,8% síðan uppgjörið var birt á þriðjudag, en bréf keppinautanna í Lowe´s hefur hækkað um 1,8% síðan félagið birti árshlutauppgjör fyrir opnun markaða í gær.
Litli keppinauturinn jók hagnaðinn
Lowe´s, sem er næst stærsta byggingavöruverslunarkeðjan í Bandaríkjunum, sá meiri söluaukningu en Home Depot, eða sem nemur 11,2% á ársfjórðungnum, sem lauk 1. maí.
Samkvæmt Barron´s varð nokkur aukning í netsölu hjá félaginu sem lengi hefur stefnt að því að ná stærð keppinautanna í Home Depot.
Í þetta sinn jókst salan úr 17,7 milljörðum dala í 19,7 milljarða dala, meðan hagnaður félagsins jókst öfugt við hjá stærsta keppinautnum. Fór hagnaðurinn úr ríflega 1 milljarði dala í ríflega 1,3 milljarða dala. Í íslenskum krónum samsvarar hagnaður félagsins 191,2 milljörðum.
Heimild: Vb.is