Úrslit í hönnunarsamkeppni um nýtt 60 eininga hjúkrunarheimili á Húsavík voru kynnt í beinni útsendingu á YouTube í dag.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti úrslit samkeppninnar af skrifstofu sinni í Reykjavík í gegnum fjarfundabúnað, en „viðstaddir“ voru þátttakendur í samkeppninni. Þar fyrir utan fylgdist hátt á annað hundrað með útsendingunni á YouTube.
Fyrstu verðlaun hlaut Arkís í samstarfi við Mannvit. Í umsögn dómnefndar segir meðal annars:
„Skipulag sambýliseininga styður við heimilisbrag með vistlegum einkarýmum fyrir hvern íbúa sem snúa flest að bænum og frábæru útsýni yfir Skjálfanda og Kinnarfjöll. Starfsaðstaða er mjög góð þar sem þjónusturými eru miðlæg og vegalengdir stuttar innan hverrar deildar. Heimiliseiningar eru allar jafnstórar og hönnun þeirra auðveldar mönnun og flæði milli þeirra, þ.m.t. yfirsýn yfir heimilið í heild og starfsfólk nýtist m.a. betur á nóttunni. Heimilið er bjart, auðvelt aðgengi er út undir bert loft frá setustofum til að njóta útsýnis og veðurs og tilhögun einkarýma gerir auðvelt fyrir íbúa að rata í herbergi sín.“
Heimilið verður alls um 4.400 fermetrar að stærð og er sem fyrr segir ætlað fyrir sextíu íbúa. Að samkeppni lokinni verður samið við hönnuði byggingarinnar og fullnaðarhönnun byggingarinnar fer í hönd.
Áætlað er að framkvæmdir við byggingu heimilisins hefjist á næsta ári og að það verði tilbúið fyrir íbúa sína árið 2023.
Ríki greiðir 85% af framkvæmdakostnaði við bygginguna, en sveitarfélagið Norðurþing það sem uppá vantar. Kostnaður við bygginguna er áætlaður um þrír milljarðar króna, auk kostnaðar sem hlýst af rýmum sem sveitarfélagið bætir við til nota fyrir þjónustu við eldri borgara.
Framkvæmdasýsla ríkisins fer með umsjón byggingarinnar í umboði heilbrigðisráðuneytis og sveitarfélagsins Norðurþings.
Samkeppnin var að fullu rafræn og í raun við hæfi að úrslitin séu vegna stöðunnar í samfélaginu kynnt með þessum al-rafræna hætti.
Um 150 manns fylgdust með útsendingunni á YouTube.
Í meðfylgjandi skjali gefur að líta yfirferð dómnefndar yfir tillögurnar 32 sem bárust í samkeppnina.
Heimild: Fsr.is