
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar úthlutaði í gær sex lóðum í fyrsta áfanga uppbyggingar í Hamranesi, sem er 25 hektara svæði við uppland Hafnarfjarðar.
Mikil eftirspurn var eftir lóðunum en sveitarfélaginu bárust 10 umsóknir í lóðirnar sem rýma í heild 148 íbúðir.
Byggingarfélag Gylfa og Gunnars fékk þrjár lóðir og fyrirtækin Fjarðarmót ehf., Valhús ehf. og Draumar ehf. fengu eina lóð. Gert er ráð fyrir að fyrstu íbúðir í Hamraneshverfi fari í sölu innan tveggja ára.
Eftirspurn mikil þrátt fyrir óvenjulegar aðstæður
„Við þessa úthlutun eru farnar nýjar leiðir í skipulagsvinnu á svæðinu sem miða að því að fá öfluga aðila með bæjarfélaginu í allt ferlið, frá skipulagsvinnu til framkvæmda. Markmiðið er að mæta enn betur þörfum markaðarins og jafnframt að lágmarka þann tíma sem fer í endurskipulagningu og skipulagsbreytingar eftir að uppbygging er farin af stað,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar í tilkynningu.
„Ekki ber á öðru en að þessi hugmyndafræði falli í góðan jarðveg og er eftirspurn eftir lóðum mikil þrátt fyrir óvenjulegar aðstæður á markaði.
Það er því greinilegt að hönnuðir og byggingaraðilar sjá möguleikana á svæðinu, auk þess sem uppbygging og kaup á lóðum í Skarðshlíð bera vott um vilja íbúa til að byggja sér framtíðarheimili við uppland Hafnarfjarðar,“ er jafnframt haft eftir Rósu.

Hamranesið mun telja um 1.500 íbúðir
Byggð í Skarðshlíðarhverfi, sem liggur við Hamranesið, rís hratt þessa dagana. Þegar er komin tveggja ára reynsla á rekstur grunnskóla í hverfinu og leikskóli var opnaður fyrir einu ári síðan.
Gert er ráð fyrir að íþróttahús og útibú tónlistarskóla verið afhent í sumar.
Uppbygging í Hamranesinu skiptist í þrjá áfanga og mun svæðið í heild telja um 1500 íbúðir. Þegar hefur úthlutun átt sér stað og lóðarvilyrði verið veitt fyrir öllum reitum og lóðum í fyrstu tveimur áföngum uppbyggingar.
„Hér er um að ræða eitt mest spennandi byggingarsvæði höfuðborgarsvæðisins og greinilegt að verktakar og væntanlegir framtíðaríbúar eru að átta sig á kostum þess og möguleikum. Ásvallabraut og nýtt leiðarnet Strætó sem fer í kynningu á næstu dögum munu auka eftirspurnina enn frekar,“ segir Rósa.
Heimild: Mbl.is