Home Fréttir Í fréttum Húsamiðjan lagði Bauhaus sem þarf að greiða hálfa milljón í sekt

Húsamiðjan lagði Bauhaus sem þarf að greiða hálfa milljón í sekt

268
0
Verslun Bauhaus við Lambhagaveg í Reykjavík. Mynd: markaðsefni bauhaus

Byggingavöruverslunin Bauhaus hefur verið sektuð um 500 þúsund krónur vegna fullyrðinga verslunarinnar um að þar sé lægsta verðið á markaðnum.

<>

Þar að auki telst Bauhaus ekki hafa gert nægilegar breytingar á svokallaðri „verðvernd“ sinni en verslunin hafði áður verið ávítt vegna hennar.

Húsasmiðjan kvartaði vegna ofangreindrar hegðunar Bauhaus til Neytendastofu í upphafi árs, ekki síst vegna fullyrðingarinnar „Hjá BAUHAUS getur þú verið viss um að fá alltaf lægsta verðið á markaðnum,“ sem birtist í markaðsefni Bauhaus.

Fullyrðingin var sett fram í tengslum við verðvernd fyrirtækisins. Í verðvernd Bauhaus felst að ef neytandi finni sömu vöru ódýrari hjá samkeppnisaðila lækki fyrirtækið sitt verð.

Sama hvaða verð aðrir samkeppnisaðilar séu að bjóða eða hvers konar afslátt eða endurgreiðslu, þ.m.t. tilboð og tax free afslætti. Bauhaus muni ávallt bjóða neytendum lægra verð.

Húsasmiðjan Grafarholti.
Mynd: Vísir/vilhelm

Ströng skilyrði
Húsasmiðjan taldi verðverndina hins vegar ekki standa undir fullyrðingunni um „lægsta verðið á markaðinum.“ Ekki væri hægt að sjá að Bauhaus gæti sannað þær fullyrðingar sem félagið setti fram í umkvörtuðum auglýsingum, auk þess sem skilyrðin sem þurfi að uppfylla til að standast verðverndina séu „það ströng og sérstök að neytendur eigi litla sem enga möguleika á að uppfylla skilyrðin.“

Það væri því mat Húsasmiðjunnar að viðskiptahættir Bauhaus í þessum efnum væru villandi og það sem meira væri; Bauhaus hefði áður verið ávítt vegna verðverndarinnar. Neytendastofa komst að þeirri niðurstöðu árið 2012 að fullyrðingar Bauhaus um verðverndina væru villandi og taldi Húsasmiðjan að tilvikið sem hér um ræðir væri sambærilegt.

Bauhaus hafnaði því að framkvæmd verðverndarinnar væri flókin fyrir neytendur, þvert á móti væri hún „þægileg.“ Verði viðskiptavinur Bauhaus var við vöru sem er ódýrari hjá keppinaut þurfi hann aðeins að framvísa eða gera grein fyrir staðfestingu þess efnis.

Viðskiptavinur geta komið slíkri staðfestingu til Bauhaus á netinu/samfélagsmiðlum eða við þjónustuborð/afgreiðslumenn. Reynist það rétt sé brugðist strax við og verð vöru lækkað í kerfum verslunarinnar Nánari útlistun á skilyrðum verðverndarinnar má nálgast í ákvörðun Neytendastofu.

Verðvernd ekki næg sönnun
Neytendastofa segir hins vegar ítrekað hafa komið fram að „fyrirtæki geti ekki byggt sönnur fyrir fullyrðingum um besta, lægsta eða hagstæðasta verð á því einu og sér að fyrirtækið bjóði neytendum verðvernd.“ Til þess að setja fram fullyrðingar eins og „Hjá BAUHAUS getur þú verið viss um að fá alltaf lægsta verðið á markaðnum“ þurfi Bauhaus að leggja eitthvað fram fullyrðingunni til stuðnings.

Það hafi Bauhaus ekki gert og sé fullyrðingin því ósönnuð og brjóti í bága við lög. Því hefur Bauhaus verið bannað að birta fullyrðinguna í framtíðinni. Þar að auki hafi Bauhaus ekki gert nægjanlegar breytingar á skilmálum verðverndarinnar.

„Við meðferð málsins hafa engin gögn verið lögð fram sem sýna fram á breytta framkvæmd verðverndar Bauhaus þó skýringar félagsins hafi verið þess efnis og upplýsingum á vefsíðu hafi verið breytt meðan á meðferð málsins stóð,“ eins og segir í ákvörðun Neytendastofu.

Stofnunin komst því að þeirri niðurstöðu að Bauhaus hafi brotið gegn ákvörðun Neytendastofu árið 2012. Fullyrðing Bauhaus um lægstu verðin á markaðnum sé þar að auki villandi. Neytendastofa taldi því rétt að leggja 500 þúsund króna stjórnvaldssekt á Bauhaus. Sektina skal greiða í ríkissjóð innan þriggja mánaða.

Heimild: Visir.is