Home Fréttir Í fréttum Vill kaupa allar íbúðir í eigu Ísafjarðarbæjar

Vill kaupa allar íbúðir í eigu Ísafjarðarbæjar

104
0

Ónafngreindur fjárfestir hefur áhuga á að kaupa allar íbúðir í eigu fasteignafélags Ísafjarðarbæjar. Bæjarráð hefur samþykkt að fela bæjarstjóranum að skoða mögulega sölu eignanna.

Fasteignafélagið Fasteignir Ísafjarðarbæjar hefur yfir að ráða 108 íbúðum á Ísafirði, Suðureyri, Flateyri og Þingeyri. Ísafjarðarbær á allt hlutafé í félaginu sem sér um útleigu eignanna.

Íbúðirnar mikið skuldsettar
Arna Lára Jónsdóttir, formaður bæjarráðs, segir að samþykkt hafi verið að kalla eftir frekari upplýsingum um kaupandann og þær hugmyndir sem hann hefur um kaupin. Hún bendir á að eignirnar séu mjög skuldsettar.

„Fyrirspurnin var bara þannig hvort við hefðum áhuga á þessu. Það komu engar fyrirætlanir fram í bréfinu þannig að við óskuðum eftir frekari upplýsingum svo við gætum tekið afstöðu til málsins,” segir hún.

„Eins og staðan er núna þá fylgja þessum eignum gríðarlegar skuldir. Við höfum auðvitað verið að selja eina og eina eign en við höfum aldrei fengið fyrirspurn sem þessa áður og þannig að fyrsta skrefið er kannski að fá upplýsingar um hvað lægi að baki þessari fyrirspurn.“

Nafnlaus fyrirspurn
Arna Lára segir að ekki hafi komið fram í fyrirspurninni hver hinn áhugasami fjárfestir sé. „Nei fyrirspurnin kemur bara frá Fasteignasölunni Garðatorgi og það kemur ekki fram hvaða aðili þetta sé,“ segir hún.

Til greina kemur að selja eignirnar en Arna Lára segir að sveitarfélagið þurfi að geta staðið við skuldbindingar sínar um félagslegt húsnæði.

„Já, já, við höfum auðvitað verið að selja eina og eina eign en við höfum ekki tekið afstöðu til þess að selja allar eignirnar á einu bretti. Við þurfum að geta sinnt þessum skildum okkur varðandi félagslegt húsnæði en manni þykir bara hálf ótrúlegt að einhver vilji kaupa félagslegu íbúðirnar okkar með öllum þeim skuldum sem á þeim hvíli. Það þykir mér hálf ótrúlegt,“ segir hún.

Steinar S. Jónsson, sölustjóri hjá fasteignasölunni Garðatorgi, staðfesti að erindi hafi verið sent bæjarstjórn vegna málsins en hann vildi hins vegar ekki upplýsa um hver fjárfestirinn sé.

<>

Heimild: Vísir.is