Home Fréttir Í fréttum Samgönguráðherra segir lág tilboð hvatningu til enn meiri vegagerðar

Samgönguráðherra segir lág tilboð hvatningu til enn meiri vegagerðar

231
0
Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson

Lág verð í útboðum endurspegla hungur á verktakamarkaðnum, að mati Vegagerðarinnar. Samgönguráðherra segir þau hvatningu til að bjóða út enn fleiri verk. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2.

<>

Ætla mætti að á tímum sérstakt framkvæmdaátaks væri tilhneiging í þá átt að verkkostnaður færi hækkandi.

Sú hefur ekki orðið raunin í útboðum Vegagerðarinnar á undanförnum vikum. Þannig var lægsta tilboð í gær í breikkun Vesturlandsvegar í Mosfellsbæ þrjátíu prósent undir kostnaðaráætlun.

Óskar Örn Jónsson, forstöðumaður framkvæmdadeildar Vegagerðarinnar.
Stöð 2/Egill Aðalsteinsson

Hjá Vegagerðinni sjá menn töluvert lægri verð í útboðum en undanfarin ár.
„Lág verð endurspegla klárlega hungur á verktakamarkaði, sérstaklega í jarðvinnuframkvæmdum,“ segir Óskar Örn Jónsson, forstöðumaður framkvæmdadeildar Vegagerðarinnar.

„Þetta kemur náttúrulega ekki á óvart. Þetta segir auðvitað þá sögu sem við þekkjum að það er slaki í hagkerfinu. Staðreyndin er sú að það eru 55 þúsund manns annaðhvort atvinnulausir eða í hlutastarfi um þessar mundir,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.
Stöð 2/Egill Aðalsteinsson

Samgönguráðherra segir jákvætt að sjá fjölda útboða og að verkin fari undir kostnaðaráætlun.

„Það er vísbending um að það sé enn slaki í kerfinu. En það er þá líka kannski hvatning til okkar að bjóða þá frekar meira út.

Af því að þegar þetta er í hina áttina, að það er yfir kostnaðaráætlun, þá er það að lokum fjármagnið sem takmarkar okkur í að geta boðið fleiri verkefni. En núna gæti það verið hvati til að bjóða þá út enn fleiri,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra.

Sparnaðurinn í þessu eina útboði í Mosfellsbæ gær er á 215 milljónir króna en þar var Sikostnaðaráætlun 706 milljónir króna en lægsta boð 490 milljónir króna. Þeir fjármunir gætu þá nýst í önnur verk.

„Það er auðvitað mjög ánægjulegt fyrir ríkissjóð, sem er að fjárfesta núna í uppbyggingu iðnviða, að njóta þess þá í góðum kjörum og er vonandi hvatning til ríkisins að gera þá meira en minna á þessu ári; bæta helst í,“ segir framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.

Heimild: Visir.is