Home Í fréttum Undirskrift samninga utboda Tvöföldun Suðurlandsvegar frá Vesturlandsvegi að Bæjarhálsi. Samið við verktaka

Tvöföldun Suðurlandsvegar frá Vesturlandsvegi að Bæjarhálsi. Samið við verktaka

840
0
Hringvegur (1), Suðurlandsvegur, Vesturlandsvegur - Bæjarháls. Framkvæmdasvæði.

Gengið verður til samninga við Óskatak ehf.

<>

Óskatak ehf. átti lægsta tilboð í tvöföldun Hringvegar (1) Suðurlandsvegar, frá Vesturlandsvegi að Bæjarhálsi.

Ákveðið hefur verið að ganga til samninga við verktakann.

Tilboðið hljóðaði það upp á rétt rúmar 402 milljónir króna og nam 81,9 prósentum af áætluðum verktakakostnaði. Samkvæmt verkáætlun skal verkinu vera að fullu lokið eigi síðar en 1. nóvember 2020.

Verkinu er skipt í tvo verkhluta:

Jarðvinna og vegagerð
Í þessum hluta eru allir verkþættir vegagerðar við tvöföldun Suðurlandsvegar í fjórar akreinar á útboðskaflanum. Um er að ræða uppbyggingu á nýrri eystri akbraut vegarins. Vegrið kemur í austurkanti axlar nýrrar akbrautar og í báðar axlir í miðdeili. Götulýsing og hliðarniðurföll verða sett í miðdeili akbrauta. Skeringar, jarðvegsskipti og gerð stofnlagna við vegstæðið hefur að stærstum hluta verið unnið fyrir mörgum árum síðan. Við mörk útboðskaflans skal tengja tvöföldun vegarins við núverandi vegyfirborð Suðurlandsvegar og rampa frá Bæjarhálsi.

Steypt undirgöng við Krókháls – lenging
Núverandi undirgöng við Krókháls skal breikka til norðurs og lengja til austurs. Ásýnd ganganna að vestan og austan verður með svipuðu sniði í verklok og nú er, þ.e. bogaformaðir stoðveggir af breytilegri hæð er sveigja frá Krókhálsi frá vestri og eystri gangamunna á báðar hliðar götu. Því skal steypa upp þrjá nýja stoðveggi, einn á norðurhlið við vestri gangamunna og tvo á báðar hliðar götu við eystri gangamunna. Vegna breikkunar og lengingar ganganna skal í núverandi göngum rífa stoðveggi á norðurhlið við báða gangamunna. Auk þess skal rífa handrið úr stáli í núverandi undirgöngum og steyptan stíg og kantstein í byggingarstæði breyttra ganga. Utan við sökkla útveggja skal ganga frá jarðvatnslögn og tengja hana við núverandi fráveitukerfi á svæðinu. Bera skal graffiti vörn á sýnilega steypufleti í göngum og á stoðveggjum. Í göngunum er raflýsing.

Verktími
Gert er ráð fyrir að verktaki geti hafið framkvæmdir við undirritun samnings og samkvæmt samþykktri verkáætlun. Verktaki skal ljúka allri malbikun fyrir 1. september 2020. Verktaki skal ljúka frágangi endanlegs vegyfirborðs, umferðarmerkja og götulýsingar á öllum vegum sem framkvæmdin tekur þannig að hleypa megi á þá ótakmarkaðri umferð fyrir 15. september 2020. Verkinu öllu skal vera lokið fyrir 1. nóvember 2020. Verkið skal unnið í fjórum megin áföngum. Hér að aftan er hverjum áfanga lýst fyrir sig, en lýsingin er þó ekki tæmandi. Ekki má loka á umferð á Suðurlandsvegi á verktímanum.

1. áfangi
Í þessum áfanga er unnið við tvöföldun Suðurlandsvegar, þ.e. gerð eystri akbrautar, frá Krókhálsi að Bæjarhálsi og gerð austasta hluta lengdra og breikkaðra steinsteyptra undirganga við Krókháls. Krókháls skal mjókkaður niður í eina akrein í gegnum undirgöngin á byggingartíma þeirra, en tryggja skal gönguleið í gegnum undirgöngin allan framkvæmdartímann. Þó skal undirgöngum lokað fyrir allri umferð ökutækja og gangandi þegar loftaplata undirganga er steypt. Umferð um norðurrampa frá Bæjarhálsi inn á Suðurlandsveg skal vera óhindruð í þessum verkáfanga. Í áfanganum er m.a. unnið í hreinsun núverandi vegstæðis, lagfæringu á núverandi bergskeringu á stöku stað. Unnið í lögnum að hliðarniðurföllum, styrktarlagi og efra burðarlagi, götulýsingu og vegriði ásamt malbikun. Skolp og frárennslislagnir liggja í austurkanti á nýrri akbraut, þá þvera vatnslögn, háspennulögn og fleiri lagnir Suðurlandsveg rétt norðan við Bæjarháls. Ekki á að hrófla við þessum lögnum utan þess að tengja skal lagnir frá hliðarniðurföllum inn á núverandi fráveitulögn.

2. áfangi
Í þessum áfanga er unnið að tengingu nýrrar akbrautar Suðurlandsvegar við núverandi akbraut í norður- og suðurenda framkvæmdasvæðis, og tengingu norðurrampa frá Bæjarhálsi við nýja akbraut. Verktaka er heimilt að loka rampanum í að hámarki í tvær vikur á meðan hann gengur frá tengingu hans við nýju akbrautina. Einnig er áfram unnið við austasta hluta undirganga við Krókháls og hann kláraður og ný akbraut Suðurlandsvegar lögð yfir þau. Gengið skal endanlega frá vegriði í austurkanti Suðurlandsvegar framhjá undirgöngum í þessum áfanga. Í þessum áfanga skal lokið allri vinnu við vegagerð á nýrri akbraut Suðurlandsvegar og norðurrampa við Bæjarháls, m.a. malbikun, veglýsingu, uppsetningu endanlegra umferðarmerkja og vegvísa.

3. áfangi
Í þessum áfanga er unnið að breikkun núverandi undirganga við Krókháls til norðurs, og sá hluti tengdur við nýjan austari hluta með endanlegu steypuvirki skv. teikningum. Allri vinnu við undirgöng skal lokið ásamt endurgerð núverandi akbrautar Suðurlandsvegar sem þarf að rífa upp vegna breikkunar undirganganna. Öll umferð um Suðurlandsveg er flutt af núverandi akbraut yfir á nýja akbraut Suðurlandsvegar.

4. áfangi
Í þessum áfanga er lokið upprifi og frágangi á þeim hluta núverandi vestur akbrautar sem leggst af í norðurenda framkvæmdasvæðis Jafnframt er unnið í yfirborðsfrágangi utan vega, m.a. í þöku- og hellulögn ásamt sáningu.
Öllum verkþáttum verksins skal lokið 1. nóvember 2020, þar með talinn brottflutningur aðstöðu og allur frágangur vinnusvæðis.

 

Heimild: Vegagerðin.is