Home Fréttir Í fréttum Fyrsta skóflustunga tekin að nýjum íbúðum fyrir aldraða í Þorlákshöfn

Fyrsta skóflustunga tekin að nýjum íbúðum fyrir aldraða í Þorlákshöfn

231
0
Gestur Kristjánsson og Einar Sigurðsson. Mynd: Hafnarfrettir.is

Í dag tóku þeir Gestur Þór Kristjánsson forseti bæjarstjórnar og Einar Sigurðsson formaður öldungaráðs fyrstu skóflustunguna að fyrsta áfanga í stækkun Egilsbrautar 9.

<>

Við tilefnið sagði Gestur að þetta væri stór dagur og það verk sem væri að hefjast væri fyrst og fremst til marks um einlægan vilja bæjarstjórnar til að standa vel að.

Hann vitnaði síðan í orð þjóðskáldsins Einars Ben og sagði „reistu í verki viljans merki, vilji er allt sem þarf“. Einar Sigurðsson sagði að nú væri langri bið lokið og vonir stæðu til að hratt yrði síðan ráðist í næstu skref.

Um er að ræða byggingu á nýjum íbúðum sérhönnuðum fyrir eldri borgara. Áfanginn er fyrsta skref í uppbyggingu hvað varðar húsnæðismál aldraða en í heildina verður hægt að byggja allt að 24 hagkvæmar, 50 m2, íbúðir.

Verktakafyrirtækið Hrímgrund annast framkvæmd fyrsta áfanga og munu þær hefjast strax í næstu viku. Stefnt er að því að ljúka framkvæmdum fyrsta áfanga á innan við einu ári.

Egilsbraut 9 Þorlákshöfn þrivíddarteikning

Að sögn Gests eru íbúðirnar rúmgóðar og fallegar en með þeim er horfið frá fyrri áformum um stök herbergi fyrir eldri borgara og þess í stað horft til þess að þeir geti haldið heimili með stuðningi svo lengi sem þeir kjósa.

Samhliða hönnun þessa fyrsta áfanga var ráðist í fullnaðarhönnun á Egilsbraut 9 og því aðgengilegt að fjölga íbúðum og byggja upp stoðþjónustu í næstu skrefum. Arkitekt að framkvæmdinni er Jón Stefán Einarsson hjá JEES arkitektum.

Byggingin er á einni hæð með góðu aðgengi að þeirri þjónustu sem veitt er að Egilsbraut 9. Íbúðirnar eru bjartar og fallegar tveggja herbergja íbúðir, rétt tæplega 50m2 og svipar að mörgu leiti til núverandi leiguíbúða í sama fjölbýlishúsi.

Heimild: Hafnarfrettir.is