Home Fréttir Í fréttum Undirbúa framkvæmdir í Helguvík með herskip í huga

Undirbúa framkvæmdir í Helguvík með herskip í huga

147
0
Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Hafnaryfirvöld hjá Reykjaneshöfnum hafa undirbúið möguleikann á því að höfnin í Helguvík geti tekið við stærri og lengri skipum en áður.
Þá er sérstaklega horft til þess að herskip á vegum Atlantshafsbandalagsins geti haft þar aðstöðu.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Þar segir Halldór Karl Hermannsson, hafnarstjóri Reykjaneshafna, að undirbúningsvinnan sé að frumkvæði hafnaryfirvalda og ekki komin í formlegan farveg hjá NATO.

<>

Hins vegar hafi fulltrúar bandalagsins áður kannað aðstæður í höfninni og því vilji hafnaryfirvöld verið undir það búin að geta þjónustað skip á vegum þess.

Halldór segir að uppbygging hafnarinnar myndi hafa jákvæð efnahagsleg áhrif á svæðið, sem glímir nú við mikið atvinnuleysi í kjölfar kórónuveirufaraldursins.

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vekur einnig athygli á málinu á Facebook-síðu sinni þegar hann fer yfir framkvæmdir á svæðinu. Þar bendir hann á þetta verkefni í Reykjaneshöfn, þar sem kostnaður er áætlaður 16,5 milljarðar króna.

Það sé samstarfsverkefni Norðurheimskautsþjóða, sveitarfélaga og Landhelgisgæslunnar. Það skapi mikil tækifæri til atvinnusköpunar á Suðurnesjum, á sama tíma og það styðji við öryggishlutverk Íslands á Norðurslóðum.

Málið hefur ekki komið inn á borð utanríkismálanefndar Alþingis. Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og varaformaður nefndarinnar, bendir á það í Morgunblaðinu að NATO geti ekki kallað eftir framkvæmdum á borð við þessar heldur þurfi ítarleg umræða að fara fram áður en ráðist er í hernaðartengda uppbyggingu. Þá hvetur hún Suðurnesjamenn til þess að vera víðsýnni í leit að lausnum við atvinnuleysi á svæðinu.

Heimild: Ruv.is