Home Í fréttum Undirskrift samninga utboda Fimm milljarðar í breikkun Suðurlandsvegar til 2023

Fimm milljarðar í breikkun Suðurlandsvegar til 2023

196
0
Séð austur í átt til Ingólfsfjalls og Kögunarhóls. Mynd/Vegagerðin.
Fulltrúar Vegagerðarinnar og Íslenskra aðalverktaka skrifuðu í dag undir samning um annan áfanga breikkunar Suðurlandsvegar á milli Hveragerðis og Selfoss. Verksamningurinn hljómar upp á rétt rúma fimm milljarða. Verkinu á að vera lokið haustið 2023.

Alls bárust þrjú tilboð í verkið, og var tilboð ÍAV það lægsta, en það hljóðaði upp á 5.069.186.286 kr. Það var ennfremur eina tilboðið sem var undir kostnaðaráætlun, en hún hljóðaði upp á 5.245.000.000 kr. ÍAV sá einnig um fyrsta áfanga verksins.

<>

„Um er að ræða nýbyggingu Hringvegar að hluta og breikkun og endurgerð að hluta, alls um 7,1 km. Gerð verða ný vegamót við Kirkjuferjuveg og Hvammsveg eystri ásamt nýju hringtorgi við Biskupstungnabraut. Lagður verður nýr tæplega 5 km Ölfusvegur með hjólareinum ásamt breytingu á Þórustaðavegi og Biskupstungnabraut,“ segir í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Þá verða þrjá brýr byggðar á leiðinni, auk þess sem undirgöng verða gerð. Breytingar á lögnum veitufyrirtækja eru einnig inni í verkinu.

„Markmið framkvæmdarinnar er að auka umferðaröryggi með því að aðskilja akstursstefnur og fækka tengingum við Hringveg ásamt því að auka umferðarrýmd vegakerfisins milli Hveragerðis og Selfoss,“ segir í tilkynningunni.

Þegar framkvæmdum lýkur verða aðeins tvenn vegamót á kaflanum frá Biskupstungnabraut að Hveragerði.

Til stendur að hefja framkvæmdir í vor og ljúka þeim haustið 2023.

Myndband af fyrirhuguðum framkvæmdum má sjá hér að neðan.

Heimild: Ruv.is