Home Fréttir Í fréttum Benni byggir á Granda

Benni byggir á Granda

551
0
Benedikt Eyjólfsson er forstjóri og eigandi Bílabúðar Benna. Mynd: Haraldur Guðjónsson/vb.is

„Það gengur ekki upp að loka sig inni og gera ekki neitt,” segir Benedikt Eyjólfsson sem byggir nýtt húsnæði undir Nesdekk út á Granda.

<>

Stjórn Faxaflóahafna samþykkti á fundi sínum fyrir helgi að úthluta Bílabúð Benna lóðinni að Fiskislóð 41 en stutt er síðan Skeljungur skilaði lóðinni.

Fyrr á þessu ári hafði Bílabúðin óskað eftir lóðinni en beiðninni var synjað þar sem auglýsa ætti hana til umsóknar. Hin umsóknin sem barst var frá Festi.
„Það er ekki svo að Bílabúð Benna sé að flytja út á Granda. Við höfum í um tvo áratugi rekið dekkja- og smurverkstæðið Nesdekk og hugmyndin er að færa það á lóðina,“ segir Benedikt Eyjólfsson, forstjóri og eigandi Bílabúðar Benna.

Starfsemi Nesdekkja fór áður fram út á Seltjarnarnesi en hefur undanfarið verið til húsa að Fiskislóð 30. Það stendur því ekki til að færa starfsemina langt. Ástæðan fyrir flutningunum er sú að leigusali húsnæðisins hefur hug á því að byggja á lóðinni.

„Það er orðið mjög erfitt fyrir fólk í Vesturbænum og úti á Nesi að fá þjónustu fyrir dekk og bíla í nágrenni sínu. Það bæði minnkar mengun, umferð og felur í sér tímasparnað fyrir þau sem þar búa að hafa slíka þjónustu í nærumhverfinu,“ segir Benni.

Forstjórinn segir að starfsemi Nesdekkja hafi sprengt eldra húsnæði og það hafi verið orðið of lítið. Með uppbyggingunni á nýrri lóð fáist stærra húsnæði sem bjóði upp á betri aðstöðu bæði fyrir starfsfólk og viðskiptavini. Stefnt sé að því að hefja starfsemi á nýjum stað um leið og nýja húsið verður byggt og kemst í gagnið.

Spurður um hvort núverandi ástand í efnahagslífinu hafi einhver fráhrindandi áhrif fyrir slíkar framkvæmdir segir Benedikt svo ekki vera. „Ég tel að nú sé mjög góður tími fyrir uppbyggingu. Það gengur ekki upp að loka sig inni og gera ekki neitt. Þetta er okkar framlag til að leggja okkar lóð á vogarskálarnar og halda tannhjólum atvinnulífsins gangandi,“ segir Benedikt.

Heimild: Vb.is