Home Fréttir Í fréttum Heimilt að semja við einkaaðila og innheimta veggjöld

Heimilt að semja við einkaaðila og innheimta veggjöld

96
0
Mynd: RÚV/Eggert Jónsson

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, hefur lagt fram frumvarp á Alþingi, sem heimilar Vegagerðinni að gera samning við einkaaðila um samvinnuverkefni um ákveðnar samgönguframkvæmdir.

<>

Tilgangurinn er meðal annars að auka verulega fjármagn til vegaframkvæmda. Heimilt verður að fjármagna verkefnin með veggjöldum. Áætlað er að verkefnin skapi allt að 4.000 ársverk.

Verkefnin, sem frumvarpið nær til, eru öll útboðsskyld. Þau eru hringvegur norðaustan Selfoss og brú á Ölfusá, hringvegur um Hornafjarðarfljót, Axarvegur, tvöföldun Hvalfjarðarganga, hringvegur um Mýrdal og jarðgöng í Reynisfjalli og loks Sundabraut.

„Markmið laganna er að auka verulega fjármagn til vegaframkvæmda og mæta mikilli þörf fyrir fjárfestingar í samgöngum, bæta umferðaröryggi og stytta og bæta vegtengingar milli byggða. Áætlað er að samvinnuverkefnin geti skapað allt að 4.000 ársverk,“ segir meðal annars á vef ráðuneytisins.

„Samvinnuverkefnin bætast við allar vegaframkvæmdir sem fjármagnaðar eru með hefðbundnum hætti á fjárlögum en í nýjustu samgönguáætlun voru framlög aukin um fjóra milljarða á ári næstu fimm árin miðað við fyrri áætlanir,“ er haft eftir Sigurði Inga í tilkynningunni.

Veð í ökutækjum
Samkvæmt frumvarpinu verður heimilt að fjármagna verkefnin að hluta eða öllu leyti með gjaldtöku af umferð um viðkomandi mannvirki. Gjaldtaka vegna framkvæmdanna má ekki hefjast fyrr en að framkvæmdum loknum og búið er að opna fyrir almenna umferð. Þá má gjaldtakan ekki standa yfir lengur en í 30 ár.

„Í öllum framkvæmdunum munu vegfarendur hafa val um aðra leið og greiða ekki gjald á þeirri leið. Þær stuðla ennfremur allar að auknu umferðaröryggi. Í lok samningstíma teljast mannvirki eign ríkisins án sérstaks endurgjalds,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.

Í frumvarpinu kemur ennfremur fram að þeir sem aka um mannvirkin án þess að greiða fyrir megi eiga það á hættu að tekið verði veð í ökutækjum þeirra. Þau veð gangi framar öllum öðrum skuldbindingum sem hvíla á viðkomandi ökutæki, nema gjöldum í ríkissjóð. Þá verði hægt að krefjast nauðungarsölu á ökutækinu, án undangengis dóms, verði skuldin ekki greidd.

Í greinargerð með frumvarpinu segir meðal annars að álag á vegi landsins hafi aukist mikið á undanförnum árum, meðal annars vegna fjölgunar ferðamanna. Á sama tíma hafi framlög til vegagerðar verið óvenjulega lág sem hlutfall af landsframleiðslu og því ekki staðið undir viðhalds- og framkvæmdaþörf vegakerfisins.

„Ýmsar ástæður eru fyrir því að leitað hefur verið til einkafyrirtækja um að koma í auknum mæli að uppbyggingu samgöngukerfa. Í fyrsta lagi geti samvinnuverkefni verið leið til þess að viðhalda fjárfestingu í erfiðu árferði.

Í öðru lagi væru þau leið til að virkja kosti einkaframtaks í samgöngum, nánar tiltekið nýsköpun og sveigjanleika í uppbyggingu og viðhaldi vegakerfisins. Í þriðja lagi geti þau stuðlað að því að skattgreiðendur fái meira fyrir peningana sína, þjónustan verði betri og að áhættuskipting milli hins opinbera og einkaaðila verði hagfelld.

Að lokum hafi reynsla erlendis frá sýnt að einkaaðilar ná að jafnaði að ljúka við framkvæmdir á styttri tíma en opinberir aðilar, ekki síst þar sem opinberri fjármögnun er oft dreift á mun lengri tíma en þörf er á framkvæmdarinnar vegna,“ segir á vef ráðuneytisins.

Heimild:Ruv.is