Home Fréttir Í fréttum Segir að skýlaus krafa sé nú gerð um skriflega samninga

Segir að skýlaus krafa sé nú gerð um skriflega samninga

83
0
Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV

Skýrsla borgarskjalavarðar um vistun og meðferð skjala í Braggamálinu segir að meðferð og vistun skjala hafi verið verulega ábótavant og að lög hafi verið brotin í ferlinu. Borgarstjóri segir gagnrýni borgarskjalavarðar réttmæta, en segir að á þessu hafi verið gerð bragarbót.

<>

Borgarskjalavörður birtir í skýrslu sinni samskipti starfsmanns arkitektastofunnar og starfsmanns Reykjavíkurborgar. Þar viðrar arkítektastofan áhyggjur af því að fjölmiðlar geti komist í gögn málsins og starfsmaður Reykjavíkurborgar segir að svo sé búið um hnútana að ekki sé hægt að opna skjalið.

Finnst þér þetta eðlileg samskipti? „Ég skil þessi samskipti reyndar þannig að það eigi að setja skjölin i PDF þannig að það sé ekki hægt að breyta þeim,“ segir Dagur.

Þannig að það sé ekki hægt að opna það, stendur í tölvupóstinum? „Já, ég átta mig á því, en það er þannig að allt sem fer inn í skjalasafn Reykjavíkurborgar er opið, nema að það séu persónuverndarsjónarmið eða hagsmunir viðskiptalegs eðlis fyrir því að það sé lokað.“

En það vekur spurningar að starfsmaður arkítektafyrirtækis, fyrirtækis sem fór langt fram úr kostnaðaráætlun, hafi áhyggjur af því hvort fjölmiðlar komist í tiltekin gögn?  „Já, eða sé að spyrja því, en ég held að það sé nú ekki stóra málið í þessu, heldur það að það er búið að bæta úr, það er búið að skjala öll gögnin sem urðu til í Braggamálinu og við erum búin að leggja fram og gera umbótaáætlanir fyrir öll svið borgarinnar á sviði skjalavörslu.“

Hann útilokar ekki að borgarlögmanni verði falið að rannsaka málið, eins og Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins, hefur óskað eftir. Jafnt í úttekt borgarskjalavarðar sem og innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar kemur fram að enginn skriflegur samningur hafi verið gerður við arkitektana og engar upplýsingar liggja fyrir um innihald hins munnlega samkomulags.

Dagur segir að vinnubrögð af þessu tagi heyri sögunni til. „Já, við gerum alveg skýlausa kröfu til þess.“

Heimild: Ruv.is