Home Fréttir Í fréttum Ístak í hópi verktaka sem fá að bjóða í nýjan aðalflugvöll Suður-Grænlands

Ístak í hópi verktaka sem fá að bjóða í nýjan aðalflugvöll Suður-Grænlands

214
0
Flugvöllurinn við Qaqortoq, samkvæmt teikningu frá flugvallafélagi Grænlands, Kalaallit Airports. MYND/KALAALLIT AIRPORTS.

Gerð nýs flugvallar er að hefjast á Suður-Grænlandi og verður það þriðja stóra flugvallarverkefnið sem Grænlendingar setja í gang um þessar mundir. Ístak er í hópi fimm verktaka sem grænlensk stjórnvöld hafa boðið að taka þátt í útboðinu. Grafískt myndband af aðflugi til vallarins var sýnt í fréttum Stöðvar 2.

<>

Flugvöllurinn í Narsarsuaq hefur til þessa verið aðalflugvöllur Suður-Grænlands en þangað er áætlunarflug á sumrin frá Reykjavík. Þaðan þarf hins vegar að sigla í tvo tíma til Qaqortoq, stærsta bæjar Suður-Grænlands, en þar búa um þrjúþúsund manns.

Grænlendingar gera ráð fyrir að þotur sem þurfa styttri braut, eins og Airbus A220, geti notað Qaqortoq-flugvöll.
MYND/KALAALLIT AIRPORTS

Grænlensk stjórnvöld undirbúa því gerð flugvallar skammt utan við bæinn. Þar er gert ráð fyrir 1.500 metra langri flugbraut og 30 metra breiðri, sem gæti tekið við smærri farþegaþotum eins og Airbus A220.

Eftir forval hafa fimm verktakafyrirtæki nú fengið boð um að gera tilboð í verkið og er Ístak í þeim hópi í samstarfi við eiganda sinn, danska verktakafyrirtækið Aarsleff, að því er Sermitsiaq greinir frá.

Tilboð verða opnuð í maí og stefnt að því að framkvæmdir hefjist í sumar en Qaqortoq-flugvöllurinn á að vera tilbúinn í árslok 2023.

Flugvellirnir í Nuuk og Ilulissat fá báðir 2.200 metra flugbraut en flugvöllurinn í Qaqortoq verður með 1.500 metra braut.

Þetta verður þriðja risaverkefnið í flugvallargerð sem Grænlendingar hefja á skömmum tíma.

Síðastliðið haust var byrjað að sprengja fyrir 2.200 metra langri flugbraut við höfuðstaðinn Nuuk og á dögunum var hafist handa við flugvallargerð í Ilulissat en þar verður einnig lögð 2.200 metra braut.

Þessu til viðbótar áforma Grænlendingar gerð átta smærri innanlandsvalla.

Heimild: Visir.is