Ráðist verður í framkvæmdir á húsnæði Seðlabanka Íslands eftir sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins.
Framkvæmdir geta tekið einhver ár. Starfsmenn Seðlabanka Íslands voru í lok síðasta árs 170 og starfsmenn Fjármálaeftirlits voru á sama tíma 120.
Samtals eru því starfsmenn nýs Seðlabanka 290 við upphaf árs.
Starfsemin er nú í húsnæði Seðlabankans á Kalkofnsvegi og þar sem FME var til húsa í Katrínartúni. Í tilkynningu Seðlabankans frá því i morgun kemur fram að stefnt er að því að sameina alla starfsemina á Kalkofnsvegi og er undirbúningur að því þegar hafinn.
Í svari Seðlabanka Íslands við fyrirspurn fréttastofu kemur fram að engin ákvörðun hafi verið tekin um breytingar á starfsmannafjölda. Unnið hafi verið að ýmsum undirbúningi síðustu mánuði, svo sem varðandi sameiningu nokkurra verkþátta, en fyrir liggi að ákveða nýtt skipulag stofnunarinnar.
„Þá er hafinn undirbúningur að breytingu á húsnæði Seðlabankans við Kalkofnsveg með það fyrir augum að rýma megi þar fleiri starfsmenn, auk þess sem ráðist verður í nauðsynlegt viðhald.
Viðbúið er að þær framkvæmdir geti tekið einhver ár og verður því starfsemin fyrst um sinn á tveimur stöðum,“ segir í svari Seðlabankans.
Þá kemur fram að hönnunarvinna stendur yfir. Stefnt sé að útboði á framkvæmdum fljótlega en breytingar verði gerðar á einni hæð í einu til að starfsemi geti haldið áfram í húsinu á meðan framkvæmdum stendur.
Eftir útboð verður kostnaðaráætlun og fleiri upplýsingar gerðar opinberar.
Heimild:Ruv.is