Home Fréttir Í fréttum Tæring í þaki fótboltahallar á Reyðarfirði

Tæring í þaki fótboltahallar á Reyðarfirði

377
0
Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV

Gervigrasið í stærsta íþróttamannvirki Austurlands er ónothæft til keppni, það er tæring í þakinu og kuldinn svo mikill að húsið er stundum kallað frystikistan.

<>

Viðbúið er að verja þurfi miklum fjármunum í Fjarðabyggðarhöllina á Reyðarfirði á næstunni.

Fjarðabyggðarhöllin á Reyðarfirði er 9 þúsund fermetrar og var tekin í notkun árið 2006 en ýmis vandamál hafa þar komið upp.

Árið 2013 fór þakið að leka og myndaðist hálka á óupphituðum gervigrasvellinum.

Árið 2017 greip um sig skelfing á miðjum fótboltaleik þegar mikill snjór sem hafði safnast á bogadregnu þakinu rann niður. Óttast að börn sem voru að leik fyrir utan húsið hefðu grafist undir en svo reyndist ekki vera.

Bíða eftir skriflegri skýrslu KSÍ
Húsið er mikilvægt fyrir fótboltaiðkun á Austurlandi, þar eru æfingar og mót og Leiknir á Fáskrúðsfirði ætlaði að nota höllina sem heimavöll í sumar. Grasvöllurinn á Fáskrúðsfirði, Búðagrund er ónothæfur.

Liðið komst upp í 1. deild en eftir skoðun KSÍ var bæjaryfirvöldum í Fjarðabyggð tjáð munnlega að gervigrasið uppfyllti ekki kröfur enda 14 ára gamalt.

Liðið gæti spilað á Eskjuvelli á Eskifirði en hann er reyndar heimavöllur Knattspyrnufélags Fjarðabyggðar. Einar Már Sigurðsson, formaður eigna- skiplags- og umhverfisnefndar, segir að nýtt gervigras kosti tugi milljóna. Málið verði tekið fyrir þegar skrifleg skýrsla berist frá KSÍ.

Telja að tæringin sé vegna galla
Þá hefur komið í ljós að tæring er í þaki hallarinnar sem er stálgrindarhús óeinangrað og virðist drekka í sig kulda. Fjarðabyggð áætlaði enga fjármuni í stórar framkvæmdir í höllinni árið 2020.

Karl Óttar Pétursson bæjarstjóri segir hins vegar að sveitarfélagið sé knúið til að bregðast við. „Það hefur reynst vera mjög kalt í húsinu og í rauninni kaldara inni heldur en úti. Þannig að það hefur verið talað um að laga þetta í mörg ár.

Svo hefur komið upp núna og við erum að láta vinna skýrslu vegna þess að það virðist vera kominn upp galli í þaki. Virðist vera komin tæring sem er ekki farin að valda neinum skaða enn þá en mun gera það þegar fram í sækir þannig að við stöndum frami fyrir því að þurfa að gera einhverja bragarbót á því.

Ein lausn til að laga það gæti verið að klæða húsið. Þá værum við bæði að fá hitann í lag í húsinu og auka notkunarmöguleika hússins og svo hins vegar að koma í veg fyrir þessa skemmd sem þarna er,“ segir Karl Óttar Pétursson, bæjarstjóri í Fjarðabyggð.

Heimild: Ruv.is