Home Fréttir Í fréttum Breytingar á Kjalvegi háðar umhverfismati

Breytingar á Kjalvegi háðar umhverfismati

250
0
Mynd: Sigurður Kristján Þórisson Hér má sjá legu Árbúða og Kerlingarfjalla.

Skipulagsstofnun telur að fyrirhugaðar framkvæmdir Vegagerðarinnar á Kjalvegi frá Árbúðum að Kerlingarfjallavegi séu háðar umhverfismati. Vegagerðin hefur síðustu tvo áratugi endurbætt 40 kílómetra leið á Kjalvegi.

<>

Þar af hafa aðeins þrír kílómetrar verið lagfærðir að undangenginni málsmeðferð í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum. Þetta kemur fram í ákvörðun Skipulagsstofnunar sem var birt í gær.

Vegagerðin hyggst lagfæra sautján kílómetra kafla Kjalvegar sem liggur milli Árbúða og Kerlingarfjallavegar.

Vegurinn verður sex metra breiður og uppbyggður um 0,5 til 0,7 metra þó fyllingar geti orðið hærri á stuttum köflum þar sem landslag er mishæðótt.

Vegagerðin telur að framkvæmdin skerði óbyggð víðerni um 16.650 hektara. Hún telur sig hins vegar ekki geta haldið uppi þjónustustigi án þess að bæta veginn.

Að auki sé staðan núna sú að nokkuð sé um utanvegaakstur á nokkrum hlutum vegarins.

Þeim á að breyta með þeim hætti að líkur á utanvegaakstri verða hverfandi í framtíðinni.
Umhverfisstofnun telur að draga megi verulega úr neikvæðum áhrifum framkvæmdanna með vönduðum frágangi. Náttúrufræðistofnun Íslands telur að framkvæmdirnar hafi töluverð áhrif á landslag.

Í ákvörðun Skipulagsstofnunar segir að hingað til hafi vegagerð við Kjalveg farið fram í bútum. Því hafi heildaráhrif ekki verið metin við hvern hluta framkvæmdanna.

Þetta sé eitthvað sem þurfi að breytast, samkvæmt úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála árið 2016.

Heimild: Ruv.is