Home Fréttir Í fréttum OR húsið verði lágstemmt og hógvært

OR húsið verði lágstemmt og hógvært

198
0
Vesturhús við höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur muni líta út eftir breytingarnar. Mynd: Hornsteinar

Endurbygging höfuðstöðva OR verður boðin út í febrúar þannig að veggirnir verði gerðir beinir. Vilja viðurkenndar lausnir.

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur hefur samþykkt að bjóða út framkvæmdir við endurbyggingu hluta skrifstofuhúsnæðis fyrirtækisins við Bæjarháls í Reykjavík, en þó með þeirri breytingu að útveggir hússins verða réttir af.

Verður útboðið auglýst í febrúar 2020 og gætu þá framkvæmdir hafist sama ár og verið lokið 2022.

Eftir miklar mygluskemmdir var húsinu lokað og starfsemi flutt úr því.
Þrír af fjórum útveggjum hins skemmda Vesturhúss slúta nú fram yfir sig, en eitt af grundvallarsjónarmiðum við hönnun endurbyggingarinnar er að yfirbragð hússins verði hógvært og lágstemmt.

Það þýðir að gólfflötur neðri hæða mun stækka en efri hæða minnka. Heildarflatarmál verður svipað og fyrir breytingar.

 

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í september 2017 kostaði bygging hússins 10,3 milljarða miðað við verðlag þess tíma, langt fram úr áætlunum um 4,5 milljarða miðað við verðlag þess tíma, og var þá áætlað að kostnaðurinn við endurbyggingu yrði 1,7 til 3 milljarðar króna svo heildarkostnaðurinn stefndi þá í 14 milljarða.

Húsasmíðameistari hússins sagði sig frá verkinu á sínum tíma vegna tilraunasemi við framkvæmdirnar sem hann sagði að þýddi að gólfin í húsinu yrðu aldrei í lagi.

Sagði hann að lítið hafi verið gert úr sér vegna viðvarana um ónýt gólf. Segir að dropað hafi í 10 mín eftir að hafa borað inn í þau.

Við hönnun endurbyggingar hússins var byggt á þessum grundvallarsjónarmiðum:

  • Viðurkenndar lausnir og útfærslur.
  • Hagkvæmni í byggingu og rekstri.
  • Byggt á núverandi burðarkerfi.
  • Nýtt yfirbragð, hógvært og lágstemmt.
  • Sveigjanleg og heilsusamleg innanrými

Það var síðsumars árið 2017 að í ljós kom að hluti skrifstofuhúsnæðis Orkuveitu Reykjavíkur var mikið skemmdur af raka.

Þetta er svokallað Vesturhús sem byggt er með öðrum hætti en annar húsakostur fyrirtækisins við Bæjarháls.

Vesturhúsið var strax rýmt og ráðist í greiningu á valkostum til úrbóta. Margir kostir voru skoðaðir og þeir kynntir almenningi, allt frá því að rífa húsið til þess að klæða það gegnsærri veðurkápu.

Niðurstaðan varð að endurbyggja útveggi Vesturhússins en nota áfram það sem heilt er; burðarvirki, gólf og ýmis kerfi hússins svo sem lyftur og loftræsibúnað.

Verkfræðihönnun endurbyggingarinnar var boðin út haustið 2018. Verkís vinnur hana en Hornsteinar eru arkitektar hússins.

Ákvörðun stjórnar um útboð framkvæmda er tekin á grundvelli kostnaðaráætlunar sem birt verður í útboðsferlinu.

Þegar tjónið uppgötvaðist óskaði OR eftir því að Héraðsdómur Reykjavíkur dómkveddi matsmenn til að grafast fyrir um orsakir skemmdanna.

Matsmenn voru skipaðir og eru enn að störfum. OR mun meta réttarstöðu fyrirtækisins á grundvelli niðurstöðu þeirra.

Bjarni Bjarnason, forstjóri OR segir að lögð hafi verið áhersla á það um leið og skemmdirnar á Vesturhúsi komu í ljós að ana ekki að neinu.

„Við skoðuðum marga kosti í stöðunni, greindum þá og mátum og teljum okkur nú vera komin að bestu niðurstöðunni.

Það gæti líka orðið hagkvæmara að ráðast í framkvæmdir af þessu tagi nú en hefðum við strax rokið af stað. Bæði hefur dregið úr spennu á byggingamarkaði og vextir eru lægri,“ segir Bjarni.

„Endurbyggingin er ekki hafin og við eigum eftir að sjá hvaða áhrif framkvæmdirnar hafa á starfsemina á Bæjarhálsi.

Í því sambandi vil ég nefna seiglu samstarfsfólksins alls í Orkuveitunni sem hefur sýnt þolgæði og sveigjanleika við þetta önuga ástand á húsnæðinu.“

Heimild: Vb.is

 

Previous articleVinna við Dýrafjarðargöng- framvinda á verkefni
Next articleAfgreiðsla mála hjá kærunefnd útboðsmála flyst til yfirskattanefndar