Framkvæmdir við Hús íslenskra fræða eru nú í fullum gangi. Búið er að steypa grunn þess rúmum sex árum frá því að fyrsta skóflustungan var tekin á sínum tíma.
Halda mætti að álög séu á húsbyggingum á svæðinu því ferlið var svipað við byggingu Þjóðarbókhlöðunnar sem stendur skammt frá.
Það var í lok janúar árið 1978 sem fyrsta skóflustungan að Þjóðarbókhlöðunni var tekin en húsið var svo ekki tekið í notkun fyrr en sextán árum síðar.
Þá hafði farið fram mikið stapp um fjármögnun byggingarinnar og ýmsir snúningar verið teknir á Alþingi til þess að koma framkvæmdunum inn á fjárlög.
Sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að helmingur þeirrar upphæðar sem veitt yrði í framkvæmdina árið 1990 kæmi úr sjóðum Happadrættis Háskólans vakti t.a.m. hóflega hrifningu yfirstjórnar skólans.

Gjörningar og aðrir notkunarmöguleikar
Þegar ljóst varð að framkvæmdum við Hús íslenskra fræða, eða Hús íslenskunnar eins og það er stundum kallað, yrðu settar á ís vakti það nokkuð sterk viðbrögð.
Ungir vinstri grænir voru afar ósáttir við aðgerðaleysið og um haustið 2013 skoruðu þeir á unga Sjálfstæðismenn í vestfirsku þjóðaríþróttinni mýrarbolta .
Tekist yrði á í grunninum. Það væri það „menningarlegasta“ sem hægt væri að gera í stöðunni, eins og stóð í áskoruninni.
Þó augljóst sé að slíkur viðburður myndi vekja mikla og verðskuldaða athygli varð þó ekkert af rimmunni. Fróðlegt verður að sjá hvort ríkisstjórn flokkanna endist lífið til að klára húsið í sameiningu.
Þegar nokkur athafnaskáld tóku sig til og efndu til samkeppni um ljótasta orð móðurmálsins í lok árs 2013 þótti við hæfi að tilkynna það við „Holu íslenskra fræða“ og er það elsta heimildin á mbl.is um þetta nýja nafn sem festist við reitinn.
Ef vilji var til þess að auka á dramatíkina var talað um „Gröf íslenskra fræða“ en holan virðist hafa haft vinninginn. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum var það orðið geirvarta sem hafði vinninginn í þessum gjörningi.
Sumir sáu þó tækifærin sem lágu í holunni og einn þeirra var Björn Jón Bragason sem þá ritstýrði vikublaðinu Reykjavík .
Í leiðara blaðsins á útmánuðum 2016 stakk hann upp á því að í stað fræðasetursins yrðu reistar stúdentaíbúðir í grunninum. Árnastofnun fengi í staðinn Safnahúsið við Hverfisgötu til sinna umráða.

„Stúdentagarðar á þessum stað mættu gjarnan vera nokkuð há bygging, allt að fimm hæðir. Í rauninni er vart hægt að hugsa sér heppilegri stað fyrir íbúðir stúdenta og þarna yrði það raunhæfur kostur þeirra margra að vera án bíls sem myndi létta á bílastæðavandanum við Háskólann og spara stúdentum kostnað,“ reifaði Björn Jón.
Heimild: Mbl.is