Home Fréttir Í fréttum Setja tæpan milljarð í hreinsivirki við Kröfluvirkjun

Setja tæpan milljarð í hreinsivirki við Kröfluvirkjun

193
0
Skjáskot af Rúv.is

Landsvirkjun ætlar að verða kolefnishlutlaust fyrirtæki árið 2025. Fyrirtækið ætlar meðal annars að verja tæpum milljarði í hreinsivirki við Kröfluvirkjun.

Forstjórinn vonar að bæði íslensk og erlend fyrirtæki fylgi fordæmi Landsvirkjunar.

Landsvirkjun kynnti þessi áform á blaðamannafundi í dag.

„Við teljum bara, í ljósi þeirrar váar sem loftslagsváin er, þá teljum við mikilvægt að fyrirtækin stígi sterkt fram, og sérstaklega fyrirtæki eins og Landsvirkjun sem hefur bæði mikla þekkingu á málinu, við vitum hvar við stöndum og líka hvaða úrlausn er möguleg,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.

Landsvirkjun hefur losað ígildi 50 til 60 þúsund tonna af koltvísýringi á ári undanfarin ár, og bundið um 30.000 tonn á móti.

Á næstu árum stefnir fyrirtækið hins vegar að því að minnka losun verulega, og auka bindinguna um leið, og ná þannig kolefnishlutleysi árið 2025.

Hvað ætlið þið að gera til þess að ná þessu?
„Við ætlum að fara í fjölþætt verkefni, bæði lítil og stór. En stærsta verkefnið sem við erum að horfa á er að setja upp hreinsivirki í Kröflu. Hreinsa gasið þar. Og minnka beina losun frá virkjuninni um helming,“ segir Hörður, en það jafngildir tuttugu og tveimur þúsundum tonna af koltvísýringi á ári.

Þá hyggst fyrirtækið minnka losun vegna flugferða starfsmanna um 30% til ársins 2030, og hætta þá endanlega að kaupa jarðefnaeldsneyti.

Kostar peninga
Þá ætlar fyrirtækið að tvöfalda kolefnisbindingu frá því sem hún er í dag, meðal annars með skógrækt, uppgræðslu og endurheimt votlendis.

,„Það sem við stefnum á að gera árið 2030, umfram það að kolefnisjafna okkur, er að binda sem nemur öllu innanlandsflugi Íslendinga.“

Hörður segir ekki stefnt að því að fara í færri virkjanaframkvæmdir í tengslum við þessar aðgerðir, enda sé með virkjunum verið að skipta jarðefnaeldsneyti út fyrir endurnýjanlega orkugjafa.

Ljóst er að aðgerðirnar munu kosta töluverða fjármuni. Þannig er talið að kostnaðurinn við hreinsivirkið við Kröflu verði tæpur milljarður króna.
„Já þetta mun kosta okkur peninga en þetta mun skapa okkur peninga til lengri tíma.“
Hörður vonast til þess að önnur fyrirtæki fylgi fordæmi Landsvirkjunar.

„Já við lítum á það sem hlutverk okkar, út af þeirri þekkingu sem er í samfélaginu, að vera fyrirmynd, ekki bara fyrir íslensk fyrirtæki, heldur líka fyrir erlend fyrirtæki, og skapa þekkingu sem Íslendingar geta vonandi selt erlendis, og skapað verðmæti fyrir samfélagið.“

Heimild: Ruv.is

Previous articleSamþykkt að kaupa útbúnað í nýtt fimleikahús á Akranesi fyrir tæplega 68 milljónir kr.
Next articleGrænt ljós á smá­í­búðahverfi