Home Fréttir Í fréttum Súðavík: Byggja 5 íbúða hús

Súðavík: Byggja 5 íbúða hús

193
0
Frá fyrirhuguðu byggingarsvæði. Mynd: sudavik.is

Súðavíkurhreppur hefur samþykkt erindi frá Hrafnhóli ehf um byggingu fimm íbúða húss á byggingarreitnum Grundarstræti 5-7-9.

<>

Þar sem einungis er gert ráð fyrir þremur íbúðum í deiliskipulagi var samþykkt að viðhafa grenndarkynningu fyrir húseigendur í Holtagötu 2, Hlíðargötu 9 og Grundarstræti 3.

Ætlunin er að veita graftrarleyfi strax svo unnt verði að hefja framkvæmdir fyrir veturinn. Bragi Thoroddsen, sveitarstjóri segir að kappkostað verði að uppbygging taki skamman tíma og er gert ráð fyrir að húsnæði verði klárt til afhendingar í vor, í byrjun maí 2020.

Hrafnshóll ehf. mun standa að byggingu húsnæðis í samvinnu við Súðavíkurhrepp. Mun Súðavíkurhreppur kosta byggingu þriggja íbúða, 3ja og 4ja herbergja, þær stærri um 90 m2.

Mun Hrafnshóll ehf. eiga og reka tvær íbúðir í óhagnaðardrifnu leigufélagi.
Áformað er að mæta útgjöldum vegna uppbyggingar með sölu á fasteignum í eigu Súðavíkurhrepps, enda á hreppurinn orðið talsvert af húsnæði, bæði íbúðar- og atvinnuhúsnæði.

Hefur sveitarstjórn samþykkt að selja báðar íbúðirnar sem Súðavíkurhreppur á í Hlíf II á Ísafirði. Í samþykkt hreppsnefndar segir að tryggt verði að 1 – 2 af íbúðunum 5 verði til að mæta þörf sem verður vegna sölu á íbúðunum á Hlíf II.

Að öðru leyti mun fjármögnun verða með láni frá Íbúðalánasjóði.
Bragi Thordoddsen, sveitarstjóri segir í færslu á vefsíðu Súðavíkurhrepps að uppbygging húsnæðis muni ekki hafa veruleg áhrif á afkomu hreppsins, en fjármögnun verður í formi lántöku að hluta.

„Tíminn mun svo leiða í ljós hvort Súðavíkurhreppur komi til með að eiga og reka húsnæðið að fullu eða hvort íbúðir verði seldar á frjálsum markaði. Rekstur fasteigna mun verða í hlutafélagi.“

Samkvæmt upplýsingum Bæjarins besta mun íbúðirnar kosta 32 – 38 milljónir króna hver.

Heimild:BB.is